153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[18:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Bara örfá orð um lífeyriskerfið yfirleitt og það sem ég legg áherslu á þegar það er rætt hér á þingi. Lífeyriskerfið sem slíkt er í raun byggt ofan á þetta séreignarkerfi sem við erum með í húsnæði. Ef fólk almennt séð er ekki með séreign sem það á skuldlaust þegar það fer á lífeyri, þá hefur það, á venjulegum lífeyri, ekki efni almennt á að borga af húsnæði. Þess vegna eru áhugaverðar ábendingar sem hafa komið fram um aukningu lífeyrissjóða á leigumarkaði. Ef svo væri þá væri það smá breyting frá séreignarhlutanum, nema um sé að ræða kaupleigu eða eitthvað því um líkt, eða fyrirkomulag þar sem leiguákvæðið væri þannig að þegar lífeyristaka hefst sé lífeyrisþegi einfaldlega með það húsnæði sem hluta af sínum lífeyrisréttindum. Mér finnst nauðsynlegt að benda á þetta, þennan ákveðna galla í lífeyrissjóðakerfinu. Þar er búist við því að allir séu komnir á góðan stað og með skuldlaust húsnæði til að lífeyririnn hafi sitt virði, sem eru ekkert rosalega margar krónur. Þær duga tvímælalaust ekki til að greiða af húsnæði almennt séð þó að sumir séu í betri stöðu en aðrir hvað það varðar. Ég vildi bara leggja áherslu á það í umræðunni að lífeyrissjóðakerfið sé skoðað í samhengi við húsnæði. Það að fólk eignist húsnæði er hinn hluti lífeyriskerfisins. Það er sá hluti sem fólk sér um sjálft að mestu leyti og það er ekki sagt nægilega skýrt í rauninni. Mér hefur aldrei fundist skilaboðin vera nægilega skýr um það hvernig lífeyrissjóðakerfið virkar í heild sinni. Það er hluti sem er almannatryggingakerfi, sá lífeyrir sem við greiðum samkvæmt lögum í lögbundna lífeyrissjóði, atvinnutengda lífeyrissjóði, og síðan er hins vegar það að til þess að lífeyririnn dugi fyrir framfærslu þá þarf maður að eiga skuldlaust húsnæði. Ég vildi bara bæta því enn og aftur inn í umræðuna í tengslum við lífeyrismál. Það er held ég atriði sem við þurfum að huga betur að.

Ef það á að fara út í aukna þátttöku lífeyrissjóða á húsnæðismarkaðnum, sérstaklega til þess að byggja upp öflugan leigumarkað, þá hefur það áhrif á lífeyrissjóðakerfið í heild sinni og við þurfum þá að pæla í því hvernig það spilast upp í framfærslu fólks sem fer á lífeyristökualdur og leigu á íbúðum, sem kannski lífeyrissjóðir eiga, hvort það dugi til nauðsynlegrar framfærslu, lágmarksframfærslu, sem er eitthvað sem vantar betri skilgreiningar á. Eins og er er t.d. umboðsmaður skuldara og ráðuneytin með framfærslureiknivél og þar er ekki reiknað með húsnæðiskostnaði í þeirri framfærslu, sem er mjög áhugavert því að það er mjög nauðsynlegur hluti af því að búa hérna, að hafa þak yfir höfuðið og þarf að reikna með því. Ég hvet til þess að nefndin skoði lífeyrissjóðakerfið með kannski smá frumkvæðisathugun sjálf með tilliti til þessa.