Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[18:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég sagði hér áðan í andsvari að ég væri þeirrar skoðunar að þetta væri gott frumvarp og ég styð heils hugar þær breytingar sem þar er kveðið á um. Þær eru af hinu góða. Ég tel það vera af hinu góða að auka vægi erlendra fjárfestinga á vegum lífeyrissjóðanna. Auk þess eru hér ákvæði um gagnsæi og upplýsingaskyldu, það er mjög jákvætt og ég kem nánar inn á það á eftir.

Landsmenn greiða háar fjárhæðir inn í lífeyriskerfið til að safna fyrir efri árunum þegar vinnu er lokið og þess vegna er afar mikilvægt að sjóðirnir standi vel og ávaxti féð eins vel og mögulegt er og það ríki fullkomið gagnsæi í þeim efnum. Það er lagaskylda að greiða í lífeyrissjóð, það er ekkert val hvað það varðar, og þess vegna er ákaflega mikilvægt að sjóðfélagar fái greinargóðar upplýsingar um sjóðinn, árangurinn, ávöxtun og aðra frammistöðuþætti þannig að sjóðfélagar geti borið saman lífeyrissjóði, náttúrlega bæði til að taka upplýsta ákvörðun, sjá hvaða sjóðir eru að standa sig vel og auk þess til að efla gagnsæið og aga og samkeppni þessara sjóða. Ég fagna því að í frumvarpinu er lagt til að lífeyrissjóðum verði skylt að upplýsa sjóðfélaga um helstu réttindi sem felast í aðild að sjóðnum og um skipulag hans og stefnu. Eins og segir:

„Betri skilningur sjóðfélaga á lífeyrissjóðakerfinu er til þess fallinn að þeir taki upplýstari ákvarðanir um lífeyrissparnað sinn, þar sem það er mögulegt. Lífeyrissparnaður er ein af stærstu eignum hvers Íslendings og samfélagið allt hefur gagn af aukinni þekkingu á lífeyriskerfinu.“

Þar bera sjóðirnir sjálfir fyrst og fremst ábyrgð. Það hefur því miður verið þannig að gagnsæi í upplýsingagjöf sjóða hefur stundum verið ábótavant og lýtur það sérstaklega að langtímaávöxtun. Sú upplýsingagjöf hefur ekki alltaf verið nægileg. Almenningur á erfitt með að bera svona sjóði saman til langs tíma því að þær upplýsingar liggja í raun og veru ekki nægilega vel fyrir í kerfinu og í aðgengilegu formi, þ.e. hvernig sjóðirnir hafa verið að standa sig í langtímaávöxtun því að það skiptir náttúrlega verulegu máli. Þessar upplýsingar eru vissulega birtar með ákveðnum hætti en þetta er tæknilegt og það þarf í raun sérfræðikunnáttu til að átta sig á því nægilega vel. Í því sambandi er athyglisvert að skoða ýmislegt efni frá sjóðunum sjálfum; ársreikninga, vefsíður og auglýsingar o.s.frv., og það orðalag sem notað er til að lýsa gengi sjóðanna. Það þarf ákveðna þekkingu bara að ná yfirliti yfir þessa hluti. Það eru dæmi um að talað sé um að tiltekinn sjóður sé traustur og öruggur og ávöxtun sé mjög góð þegar reyndin er kannski í einhverjum tilfellum að um sé að ræða frekur slaka ávöxtun, slakan árangur þegar til lengri tíma er litið. Ég held að það sé líka ákveðin tilhneiging til að sýna ávöxtun þegar hún er góð og síður þegar hún hefur verið misgóð og þá kannski á löngu tímabili. Það er eitt að hafa góða ávöxtun yfir sérvalið tímabil en það er mikilvægara að geta þess hvernig hefur gengið á ársgrunni eins langt aftur og sjóðurinn eða forveri hans hefur starfað. Þetta er ákaflega mikilvægt og eykur á aga og eykur á samkeppni. Í einhverjum tilfellum eru dæmi um að menn séu að nota stór lýsingarorð eins og t.d. að árangur sjóðs sé einsdæmi og um einstakan árangur sé að ræða o.s.frv., en þegar þetta er skoðað í kjölinn og af þekkingu þá er ávöxtunin kannski ekki eins góð þegar skoðað yfir langt tímabil. Allt skiptir þetta máli og þess vegna fagna ég þessu ákvæði í frumvarpinu um gagnsæi og upplýsingaskyldu. Við sem sjóðfélagar eigum náttúrlega ekki skilið að fá loðnar upplýsingar, þetta þarf að vera einfalt en sýna engu að síður fullkomlega hvernig ávöxtunin stendur yfir langt tímabil. Upplýsingarnar þurfa að vera skýrar og greinilegar og samanburðarhæfar. Það er mjög mikilvægt. Auk þess eiga hér óháðir aðilar að koma að mínum dómi þar sem raunávöxtun er borin saman við aðra sjóði.

Frú forseti. Það verður bara að segjast eins og er að það hefur ríkt of lengi skortur á gagnsæi hvað varðar upplýsingar um ávöxtun sjóðanna. Ég sagði það hér áðan að auðvitað eiga lífeyrissjóðirnir sjálfir að hafa frumkvæði að vandaðri upplýsingagjöf til félagsmanna um ávöxtun sjóðanna. Í Þýskalandi t.d., Sviss og Austurríki, held ég, og víðar er ávöxtun sjóða birt mjög mörg ár aftur í tímann, stundum jafnvel áratugi. Allt er þetta gert aðgengilegt almenningi. Menn hafa oft sagt að það eigi ekki að bera sjóði hér á landi saman af því að þeir hafi mismunandi fjárfestingarstefnu. En ef slík rök halda þá ætti í raun og veru aldrei að bera saman neinn árangur íslenskra lífeyrissjóða og það væri ekki verið að hugsa um eðlilega upplýsingagjöf til almennings. Það má vera að sjóðir hafi mismunandi fjárfestingarstefnu, ég held að það sé alveg ljóst, en það gildir einu, almenningur á réttláta kröfu á að fá þessar upplýsingar betur upp á borðið en verið hefur. Það er einmitt kveðið á um það í þessu frumvarpi og ég fagna því sérstaklega.

Ég nefndi Þýskaland og Sviss áðan og þar eru sjóðir víða sem setja óháða aðila í það að meta ávöxtunina. Það eru óháðir ráðgjafar sem fara yfir þessa frammistöðuþætti gagnvart tilteknum sjóði og svo er ákveðið orðspor í húfi hjá þessum ráðgjöfum, að fólk treysti þeim í þeim efnum og þá leggja menn sig náttúrlega alla fram til þess að gera þetta vel og gefa almennar skýringar og upplýsingar. Það er þeirra hagur að birta gagnsæja útgáfu af ávöxtuninni og almenningur öðlast traust á þessum ráðgjöfum og þetta held ég að skipti miklu máli. Það hefur verið ágætisfyrirkomulag sem eykur gagnsæi í upplýsingagjöf til almennings að það séu sérstakir ráðgjafar sem sérhæfa sig í þessu og við ættum að horfa svolítið í það. Hér eru til mjög fróðir einstaklingar um lífeyrissjóðina á Íslandi og hafa gefið góð ráð. En þetta lýtur allt að því að hafa þetta ákveðna aðhald gagnvart sjóðunum sem ég tel vera mikilvægt.

Árið 2018 var gerð áhugaverð skýrsla um ávöxtun lífeyrissjóðanna af Hallgrími Óskarssyni verkfræðingi og Gylfa Magnússyni, dósent við Háskóla Íslands. Þar kom fram, sem var mjög athyglisvert, að 70% lífeyrissjóða á Íslandi hafa ekki náð þeirri ávöxtun til langs tíma sem sjóðirnir hafa sett sér að markmiði. Það er býsna há tala.

Samkvæmt núgildandi lögum, hvað snertir upplýsingaöflunina, þá er lífeyrissjóðunum ekki heimilt að birta sjóðfélögum sínum upplýsingar rafrænt nema þeir óski sérstaklega eftir því. Sjóðirnir þurfa því að senda upplýsingar um stöðu lífeyrissparnaðar, sem er lögbundinn eins og við vitum, út á pappírsformi til allra sjóðfélaga sem hafa ekki lagt fram slíka ósk. Þessi kostnaður hefur verið umtalsverður eða u.þ.b. 200 millj. kr. á ári. Í þessu frumvarpi, verði það samþykkt, er lagt til að sjóðfélagar þurfi að biðja um þessar pappírssendingar í stað þess að óska sérstaklega eftir að þeim verði hætt. Þetta hefur að sjálfsögðu jákvæð umhverfisáhrif og dregur úr kostnaði.

Svo voru aðilar sem gerðu athugasemdir, sem kemur m.a. fram í frumvarpinu og þar er einmitt talað um athugasemdir sem Arion banki gerði, þess efnis að hann vildi rukka þá sem óskuðu eftir pappírsyfirlitum. Það var ekki tekið tillit til þessara athugasemda bankans og mér finnst það bara vera vel vegna þess að mér finnst þjónustugjöld bankanna vera ansi há. Tekjurnar sem þeir hafa skipta milljörðum á ári. Það er lögbundið fyrirkomulag að vera í lífeyrissjóði og ég get ekki séð að það eigi að fara að rukka fyrir þessi yfirlit sérstaklega. Ég held að það sé nokkuð ljóst að sjóðfélagar yfir höfuð eigi ekki að þurfa að greiða fyrir það.

Frú forseti. Það eru fleiri athugasemdir sem ég vildi aðeins nefna hér að lokum. Það kemur t.d. fram í umsögn Landssambands lífeyrissjóða að aðlögunartímabilið úr 50% í 65% sé of langt og það sé brýnt að heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í erlendum gjaldmiðlum verði rýmkaðar hraðar. Það eru fleiri sem taka undir þessar athugasemdir. Alþýðusamband Íslands kemur fram með þá athugasemd að það sé yfirlýst stefna sambandsins að auka hlutdeild erlendra eigna í eignasafni lífeyrissjóða og hvetur sambandið ráðuneytið til að skoða hvort ekki megi stytta innleiðingarferlið. Og sama er að segja um Bandalag háskólamanna, það telur að of varlega sé farið í að rýmka erlendar eignir lífeyrissjóðanna og leggja til að ferlinu verði flýtt. Hér eru a.m.k. þrír aðilar sem telja eðlilegt að þessu ferli verði flýtt. Ég held að það sé ljóst, frú forseti, að það verði að skoða það í nefndarvinnunni sem fram undan er hvort það eigi að flýta þessu ferli. Það er náttúrlega verið að taka hérna varfærniskref en mikilvæg og ég fagna því að sjálfsögðu.

Síðan er Seðlabankinn með athugasemdir sem eru meira lagalegs eðlis. Samkeppniseftirlitið lýsir því yfir í umsögn sinni að rýmkun á heimildum lífeyrissjóða falli vel að áhyggjum eftirlitsins um möguleg áhrif þess á samkeppni að lífeyrissjóðir eigi veigamikla eignarhluti í fleiri en einum keppinaut á sama markaði og eftirlitið kallar eftir frekari umræðu um það hvaða breytingar séu best til þess fallnar að draga úr mögulegum skaðlegum áhrif þess á samkeppni. Þetta er að sjálfsögðu athugasemd sem ætti að skoða í nefndarvinnunni sem fram undan er því að allt lýtur þetta að því ávöxtun sjóðs sé sem best, það ríki agi í þessum efnum, gagnsæi og samkeppni. Ég held þetta sé allt svona hugtök sem skipta okkur máli í þessu. Að þessu sögðu, frú forseti, þakka ég fyrir þetta frumvarp sem er mikilvægt og vona að nefndin skoði þær athugasemdir sem þarna koma fram og að hinn almenni sjóðfélagi muni njóta góðs af þessum breytingum, sem eru fyrir þá, ég er sannfærður um að svo verði og ég fagna þeim.