Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[18:44]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég velti því upp hér hvort það væri ekki ágætis hugmynd að fjármálaráðuneytið færi í alvöru greiningu á þessu fjárfestingarátaki þannig að þjóðin myndi raunverulega átta sig á hvað leitaði út, vegna þess að hér hefur verið talað um mjög háar upphæðir sem hafa verið samþykktar en ekki gengið út. Það er líka mikilvægt að horfa á þetta í samhengi þess að hin hliðin á opinberri fjárfestingu er sveitarfélagafjárfestingin sem hefur hrunið. Þar var fjöldinn allur af verkefnum sem voru „skóflutilbúin“, ef svo má segja, sem fengu ekki fjármagn vegna þess að sveitarfélögin þurftu að beina fjármagni í vanfjármagnaða þjónustusamninga og til að standa undir stórum málaflokkum sem ríkið fjármagnaði ekki.

Mig langaði því kannski að beina tvíþættri fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra: Er vilji til að fara í frekara samstarf með sveitarfélögunum þegar kemur að fjárfestingarátaki og gera þetta ekki svona einhliða? Í því felst auðvitað að ríkið standi við ákveðnar skuldbindingar, t.d. á sínum samningum í tengslum við málaflokk fatlaðs fólks, um hjúkrunarheimili og rekstur þeirra, til að svigrúm sé fyrir sveitarfélögin að taka þátt og vinna þau verkefni sem ríkissjóði hefur ekki tekist að koma af stað.

Hvaða áhrif telur hæstv. fjármálaráðherra síðan að þessi reynsla af vanfjárfestingargetu í kerfinu geti haft á áætlanir núna á þessari fjármálaáætlun? Mun þetta 100 milljarða plan á ári hverju standast, þar með talið mikilvægar uppbyggingar í húsnæðismálum, þjóðarsjúkrahúsi og stórum þjóðarinnviðum?