Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[18:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru mjög margir óvissuþættir og jafnvel þó að hagspáin væri fullkomin þá er hún samt byggð á forsendum. Það getur verið að þetta sé eins vel gert miðað við forsendurnar og hægt er en síðan bresta forsendurnar.

Örstutt varðandi framkvæmdirnar. Auðvitað heyra þær undir ólík ráðuneyti og það þarf að skoða hvert tilvik fyrir sig. Hvað er að gerast í hjúkrunarheimilum, byggingu Landspítala, í vegamálum, lagningu á sæstreng, framkvæmdum, Landsvirkjun, Isavia eða annars staðar? Við þurfum að velta því fyrir okkur frá hverju máli til þess næsta hvað hefur orðið um nýtingu þeirra fjármuna sem við ætluðum verkefnunum.

Varðandi fjármálaáætlunina og uppstillingu fjárlaga þá held ég að ég skilji ágætlega hvað hv. þingmaður á við, að til lengri tíma ættum við að vera með einhver langtímamarkmið um það hvernig vöxtur útgjaldahliðar og tekjuhliðar væri að breytast. En ég held hins vegar að það sé óframkvæmanlegt að gera þetta. Tökum sem dæmi: Ef við værum að miða við liði eins og atvinnuleysi og við ætluðum bara að greiða út atvinnuleysisbætur miðað við eitthvert langtímameðaltal en síðan skylli á mjög alvarlegt atvinnuleysi þá myndi sá fjárlagaliður strax lenda í lás. Jafnvel þótt við myndum ekki nota slíkan lið, sem við erum vön að leiðrétta undir lok árs, þá gæti þetta átt við svo víða í kerfinu. Framkvæmd er í raun þannig að við veitum framkvæmd fjárlaga aðhald með því að stöðva fjárveitingar ef menn eru búnir með allar fjárheimildir. Þess vegna held ég að það myndi ekki ganga að notast bara við meðaltal og sjá svo til hvernig úr spilast.