Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[18:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er galdurinn við meðaltalið að þótt við förum undir það í einhvern tíma þá förum við yfir það á einhverjum öðrum tíma í staðinn. Hvað atvinnuleysisbætur varðar eða eitthvað svoleiðis, ef við fáum aukið atvinnuleysi, þá erum við annaðhvort búin að safna fyrir því eða munum safna fyrir því á árunum á eftir. Þannig erum við stöðugt að fylgja og elta meðaltalið, meðaltalshagvöxtinn og meðaltalsefnahagskerfið en ekki dýfurnar og toppana sem við erum að gera núna. Það gerir það að verkum að við erum einhvern veginn með svona tvöfalt sveiflukerfi sem eltir hvort annað og endar á því að ýfa hvort annað upp frekar en að stuðla að stöðugleika.

Mér fannst þetta áhugavert svar hjá hæstv. ráðherra því að vandinn sem við horfum á er einmitt sá að það er settur einhver núllpunktur við áramót, eitthvert almanaksár, eins og hann svaraði í fyrirspurn áðan. Lög um opinber fjármál gera í raun ekki ráð fyrir því, (Forseti hringir.) þau gera ráð fyrir að það sé útskýrt hvernig fjárheimildir eru fluttar á milli almanaksára en á heildina litið á almanaksárið ekki að stjórna því hvernig fjárheimildir virka.