Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[18:56]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir áhyggjur sem komið hafa fram varðandi fjárfestingar. Ég tel það samt ekki hundrað í hættunni þar sem ég tel að hér sé einungis um kerfislegt vandamál að ræða sem sýni að fjárfestingar ríkisins sem hagstjórnartæki til að örva hagvöxt séu ekki alveg sem skyldi. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um kafla 2.3, Þróun skulda. Á bls. 4 segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt ríkisreikningi voru skuldir alls 2.618 milljarðar kr. þar af voru vaxtaberandi skuldir 1.468,5 milljarðar kr. …“

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 var áætlað að vaxtaberandi skuldir ríkissjóðs mundu hækka um 268 milljarða kr. …“

Það er 50,5 milljörðum lægra en áætlað var. Spurningin er þessi: Gæti hæstv. fjármálaráðherra upplýst hversu mikla vexti við erum að borga af þessum vaxtaberandi skuldum, hversu margir milljarðar það eru?

Annað sem mér er hugleikið á er að samkvæmt upplýsingum sem ég aflaði mér rétt áðan þá eru skuldir okkar 74,6% af vergri landsframleiðslu. Ríki eins og Eistland, eitt af Eystrasaltsríkjunum þar sem búa 1,3 milljónir, skuldar sem nemur 16,7% af vergri landsframleiðslu.

Mín spurning er þessi: Eru ekki skuldir íslenska ríkisins, miðað við stærð eða smæð þjóðarbúsins, allt of háar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu? Og ættum við ekki að reyna að nálgast ríki eins og Eistland hvað varðar erlendar skuldir? Ég er ekki að tala um að þessi lækkun ætti að bitna á velferðarkerfinu. Það er ekki gott að vera með hátt skuldahlutfall í ríki sem býr við auðlindahagkerfi þar sem geta verið sveiflur. Erum við að keyra niður skuldir nógu hratt miðað við fjármálaáætlun og fjármálastefnu ríkisins? (Forseti hringir.) Mín persónulega skoðun er að 74,6% sé allt of hátt hlutfall miðað við allt og allt.