Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[19:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fjárstjórnin er einmitt þessi stöðugleiki og fyrirsjáanleiki. Hæstv. ráðherra segir að við verðum að passa okkur á auknum útgjöldum í uppsveiflu, að þess vegna sé fjármálaráð að vara við svona notkun á langtímaspám, og þá eiga sömu rök við um niðurskurð í niðursveiflu. Við erum enn þá að súpa seyðið af niðurskurðinum eftir hrunið. Kerfin okkar eru fjársvelt og sannanlega svo. Það er mjög auðvelt að benda á það hvar við erum ekki að sinna þeirri þjónustu sem við ætlumst til lögum samkvæmt. Það er fullt af dæmum um það, t.d. varðandi NPA-þjónustu, þjónustu í heilbrigðiskerfinu, í félagslega kerfinu o.fl. Við erum enn að súpa seyðið af því að eðlilegum útgjöldum var ekki viðhaldið í rauninni og þá tekjum þegar þær komu til baka. Þessi rök um að maður verði nú að passa sig á því, þegar hagsveiflan fer á fleygiferð, að eyða ekki umfram efni eiga líka við þegar það er niðursveifla, að þá sé ekki skorið niður umfram þörf og nauðsyn á þjónustu. Og ef við gerum þetta svona þá erum við alltaf að deila um rétta hlutinn sem er: Hver er viðeigandi þjónusta? Ekki það hvort við þurfum að skera niður eða bæta í statt og stöðugt heldur sjáum við einfaldlega hver viðeigandi þjónustuþörf er að meðaltali — að meðaltali er kannski ekki alveg rétt orðað heldur bara viðeigandi þjónustuþörf, rétt að segja það þannig — miðað við meðalefnahag, efnahaginn. Við sjáum það í afkomunni, plús og mínus, hvernig efnahagurinn er að þróast. En þá er talan sem fer í þjónustukerfin, sem við erum þá sammála um að séu fullfjármögnuð eða ekki, eitthvað sem við erum að rökræða um óháð því hvernig efnahagssveiflan er.