153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[11:00]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að sýna fjölmiðlum þennan áhuga enda hefur hv. þingmaður starfað um árabil á vettvangi fjölmiðla. Ég er fyllilega sammála hv. þingmanni um mikilvægi fjölmiðla og fjölmiðlar eru iðulega nefndir sem fjórða stoðin er varðar skiptingu valds. Fjölmiðlar veita auðvitað þetta nauðsynlega aðhald, bæði í stjórnmálum, viðskiptalífinu og samfélaginu, þannig að í mínum huga er engin spurning að fjölmiðlar skipta mjög miklu máli.

Mig langar að nefna nokkra þætti. Í fyrsta lagi er hafin heildarendurskoðun í ráðuneytinu um að móta fjölmiðlastefnu til 5–7 ára. Því get ég upplýst hv. þingmann um að sú vinna er hafin.

Í öðru lagi hef ég lagt fram frumvarp þar sem við lengjum í þessum stuðningi. Í þriðja lagi þá á sér stað samvinna og samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið þar sem við erum að skoða streymisveitur og hvað önnur ríki gera varðandi erlendar streymisveitur. Það er ýmislegt sem kemur í ljós þar, til að mynda að Danir hafa verið að setja á sérstakt framlag. Streymisveitum þar ber að vera með sérstakt framlag inn í Kvikmyndasjóð og inn í menninguna í Danmörku og mörg ríki eru að vinna að þessu eða hafa hrint því í framkvæmd.

En ég vil upplýsa hv. þingmann um það að í fyrsta lagi er heildarendurskoðun hafin, í öðru lagi þá er frumvarpið komið fram og svo erum við í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið um hvernig við stígum næstu skref varðandi frekari tekjuauka inn í þetta umhverfi.