Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

almannatryggingar.

54. mál
[11:27]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir elju hans við að halda þessum málum á lofti og horfa á að þetta er í fjórða skipti sem þetta frumvarp er lagt fram og það gerist ekkert. Þegar maður hlustar á hv. þingmann lýsa því hvernig þetta kerfi virkar finnst manni það algjörlega galið. Það er verið að segja: Jú, það er verið að hækka á miðju ári tekjur þessa hóps um 3% og það á að gera það um 6% um áramót. En á sama tíma fer í gang eitthvert hjól í hinn endann sem rífur þetta bara af fólki.

Mig langar aðeins varðandi aldurstengdu örorkuuppbótina að biðja þingmanninn aðeins að fara betur yfir hana. Ekki að ég sé að gagnrýna heldur af því að mig skortir bara þekkingu. Ég gæti ímyndað mér að aldurstenging væri mikil þegar þú ert ungur af því að þá verður þú af möguleikum til að búa þér til tekjur og hún eigi svo að fjara út eftir því sem þú eldist af því að möguleikar á vinnumarkaði eru þannig að þeir minnka í sjálfu sér eftir því sem maður eldist.

Mig langar aðeins að biðja hv. þingmann um að fara yfir það hvernig hún virkar gagnvart þessum hópi, þessi aldurstengda örorkuuppbót. Við sjáum þessa hluti vera að gerast í lífeyriskerfinu okkar líka — ef hann gæti skýrt þetta aðeins út.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir þingmenn á að ávarpa forseta en ekki hver annan.)