Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

almannatryggingar.

54. mál
[11:30]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir andsvarið. Upphaflega hugsunin á bak við aldurstengdu uppbótina var sú að þeir sem verða t.d. öryrkjar 18 ára eru búnir að vera öryrkjar alla tíð, þeir koma inn í kerfið 18 ára og þetta eru yfirleitt þeir einstaklingar sem eru verst staddir líkamlega og jafnvel andlega líka. Það er hvort tveggja. Það var hugsað þannig að kostnaður hjá þessu fólki væri yfirleitt meiri en gengur og gerist meðal öryrkja. Það er ýmis kostnaður eins og lyfjakostnaður, læknisþjónusta og ýmislegt, jafnvel sjúkraþjálfun sem þetta fólk þarf á að halda. Þess vegna var hugsað um upphæð sem er, eins og ég sagði, 54.210 kr í dag og það er fyrir þá sem eru 18 ára og eldri. Síðan ef þú kemur seinna inn í kerfið þá minnkar þessi upphæð. Eins og þegar ég fór inn í kerfið 38 ára þá fékk ég einhvern þrjúþúsundkall eða eitthvað, bara smotterí. Þegar þú ert kominn upp í ákveðinn aldurshóp þá dettur þetta út. Það sem ég hef oft hugsað í þessu kerfi er að það mætti eiginlega láta þetta detta miklu fyrr út því að þeir sem koma seinna inn í kerfið eiga þó alla vega lífeyrissjóð, þeir eiga jafnvel séreignarsparnað í dag og þeir standa að mörgu leyti betur en þessir einstaklingar. Þess vegna myndi ég vilja hafa þetta miklu hærri upphæð hjá þessum einstaklingum og láta þetta fjara út hraðar og bara hverfa fyrr. Það væri hægt að gera til að bæta stöðu þessa hóps vegna þess að þetta er hópur sem þarf þennan stuðning og þetta er hópur sem er ekki á vinnumarkaði og hefur yfirleitt ekki neinar lífeyristekjur eða aðrar tekjur, séreignarsparnaðinn eða nokkurn skapaðan hlut annan.