Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

almannatryggingar.

54. mál
[11:34]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir þessa fyrirspurn. Hún er eiginlega að mörgu leyti frábær vegna þess að staðreyndin er nefnilega sú að þegar almannatryggingakerfið var síðast endurskoðað voru eldri borgarar teknir út og kerfið hjá þeim einfaldað. Á sama tíma voru teknir frá held ég 4 eða 5 milljarðar sem átti að nýta í endurskoðun örorkukerfisins og krónu á móti krónu skerðingar og annað. Síðan var hætt við það og ríkið er sennilega búið að spara sér 30–40 milljarða á þessu tímabili. Þetta er bara sparnaður upp á 4–5 milljarða á hverju einasta ári sem ríkið á og áttu að fara í þetta kerfi en hafa ekki farið í það. Meira að segja voru þessir peningar sem voru í þessu kerfi á sínum tíma notaðir í eingreiðslur og líka til þess að hækka bílastyrki. Það átti að kaupa bíla og þeir voru notaðir í það á sínum tíma.

Ég hef trú, jú. Fyrsta málið sem ég lagði fram á Alþingi á sínum tíma var út af styrkjum, bílastyrkjum, lyfjastyrkjum og ýmsum styrkjum. Ég lagði það fram vegna að þar hafði ég mína eigin reynslu, ég fékk bara 15.000 kr. styrk til að kaupa bensín á bíl og það endaði með því að ég fór að reikna þetta út af því ég skildi ekkert í því að ég stóð ekkert betur við að fá þennan 15.000 kr. styrk. Ég endaði í 3.000 kr. mínus, ég var búinn að reikna það út, við að taka við styrknum, vegna skerðinga út úr kerfinu. Mér fannst þetta svo arfavitlaust vegna þess að þetta átti að hjálpa. Þannig að ég lagði fram hér að þessir styrkir yrðu gerðir skatta- og skerðingarlausir þannig að ekki yrði tekinn skattur af þeim og það var samþykkt. Það var samþykkt og það var fyrsta málið sem ég náði í gegn.

Núna er þetta held ég rétt um 20.000 kr. Þetta hefur nú ekki hækkað mikið því að þeir passa sig að hækka þetta ekki samkvæmt vísitölu. En það er skattlaust og það er ekki skert. Þannig að ég á von á að dropinn holi steininn og núna þurfi ekki að koma með þetta í fimmta skiptið.