Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

almannatryggingar.

54. mál
[11:37]
Horfa

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir tækifærið til að geta rætt þetta í dag. Okkur hættir svolítið til að líta á öryrkja sem einsleitan hóp fólks. Það eru bara fjöldamargir í þeirri stöðu að vera fatlaðir og örorkulífeyrisþegar allt sitt líf og það er svo mikilvægt að við festum þessa hópa ekki í fátæktargildru alveg þar til þeirra ævidagar eru taldir. Það er mjög mikilvægt að við tryggjum fólki sem mun aldrei geta unnið framfærslu. Það eru ákveðnir hópar sem munu aldrei geta farið í endurhæfingu eða komið sér inn á vinnumarkað, t.d. fólk með þroskahömlun sem getur bara ekki unnið, fólk með fjölþætta fötlun og þeir sem vegna annarra veikinda munu aldrei geta komist á vinnumarkað. Við megum ekki líta á örorku sem tímabundið ástand og við þurfum að tryggja að þeir sem eru á langvarandi örorku geti lifað mannsæmandi lífi alveg fram eftir, þar til þeir verða eldri borgarar og lengur en það.