Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[11:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka framsögumanni fyrir framsöguna með málinu. Ég held að þetta sé mál sem þingið muni taka til umfjöllunar í vetur þar sem þetta er hluti af heildarmyndinni sem snýr að málefnum útlendinga. Það er fjallað um það í ríkisstjórnarsáttmála að það eigi að taka lög um útlendinga og lög um atvinnuréttindi útlendinga til endurskoðunar, m.a. með það að markmiði að rýmka fyrir atvinnuleyfum og atvinnuþátttöku útlendinga hér á landi. Ég tel að það sé mikilvægt að fólk sem hingað kemur geti stundað atvinnu. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta en er komin hér upp til þess að segja það að ég og við í Vinstri grænum styðjum efnislega það sem hér kemur fram. Það hefur verið boðað að það muni koma fleiri frumvörp sem snúa að útlendingamálum og við þurfum að sjá hvernig það spilast í gegnum þingið. En ég tel gríðarlega mikilvægt að tekið verði á því að rýmka fyrir því að fólk sem hingað er komið til dvalar geti stundað hér atvinnu og séð fyrir sér því að það er partur af því að vera þátttakandi í samfélaginu og mun bæta það að öllu leyti.