Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:28]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ræðu sína. Ég heyri á henni að henni finnst tilefni til þess að fara í heildstæða stefnumótun í málefnum útlendinga. Þetta er orðræða sem við heyrum mjög oft, sérstaklega þegar kemur að því að bæta réttindi flóttafólks, það er svona mín tilfinning, að það sé kominn tími til að fara í heildstæða stefnumótun, það þurfi að skoða allt ofan í kjölinn áður en við getum tekið einhver skref til að bæta stöðu þessa hóps.

Áður en þessi stefnumörkun er einu sinni farin almennilega af stað og situr enn í einhverri ráðherranefnd þá á samt að reyna að þröngva í gegnum þingið í fimmta sinn frumvarpi sem allir sem fara með mannréttindavernd flóttamanna eru sammála um að skerði verulega, ef ekki brjóti á réttindum flóttafólks.

Væri ekki réttara, virðulegi forseti, að bíða eftir þessari heildstæðu stefnumótun áður en við rjúkum af stað í það að skerða réttindi fólks undir stjórnsýslurétti, stytta málsmeðferðartíma, þ.e. gera fólki erfiðara fyrir að andmæla ákvörðunum Útlendingastofnunar, svipta fólk framfærslu, húsnæði, fæði og klæði án þess að nægjanleg greining hafi farið fram á því hvað kom eiginlega fyrir þetta fólk, áður en þessi stefnumótun hefur átt sér stað? Er það ekki fljótfærni af hálfu ríkisstjórnarinnar að tala alltaf fyrir heildstæðri stefnumótun í málefnum útlendinga en koma síðan trekk í trekk með þetta vanhugsaða frumvarp sem brýtur á, skerðir og brýtur niður það verndarkerfi sem við höfum? Þyrftum við ekki að fara í þessa stefnumótun fyrst hv. þingmaður?