Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég heyri hér að fólk er mjög kappsamt að fá að ræða um sjálft útlendingafrumvarpið sem við vonandi getum rætt um fljótlega því að flestar spurningarnar og nálganirnar lúta einmitt að því frumvarpi en ekki því frumvarpi sem við ræðum hér. Það er alveg rétt að ég talaði um að við þyrftum heildstæða nálgun á þetta og jú, það er ráðherranefnd að störfum. En það er ekki svo að einhverju frumvarpi hafi bara verið kippt út úr dómsmálaráðuneytinu og sagt: Svona leysum við þetta. Það er auðvitað byggt á mikilli vinnu, á reynslu af því hvernig tekist hefur til með útlendingalögin sem við breyttum hér 2016. Það er auðvitað ekkert hlaupið til í því enda er búið, eins og hv. þingmaður þekkir vel, að gera ítrekaðar tilraunir til að koma því í gegnum þingið. Ég held að við ættum bara að bíða með umræðu um útlendingafrumvarpið sjálft þar til það lítur dagsins ljós.

Ég vil þó bara nefna það að í mínum huga mun frumvarpið fyrst og fremst lúta að því að aðlaga okkar regluverk að því sem gerist í nágrannalöndunum okkar, í norrænu ríkjunum sem við berum okkur svo gjarnan saman við í svo ofboðslega mörgum málum. Ég sé ekki að það standist að hér sé hægt að halda því fram að hin norrænu ríkin, sem eru fyrirmyndarvelferðarríki, séu að brjóta á mannréttindum. Ég tel eðlilegt að við horfum til hinna Norðurlandanna, lærum af því sem þar er vel gert en við getum líka lært af því sem þeir hafa ekki gert nógu vel.

Ég bara hlakka til að taka samtalið um útlendingalögin þegar þau koma fram en jafnframt um aðra þætti er lúta að málefnum útlendinga. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum upp, alveg eins og ég nefndi áðan, bara skólamálin, það hver staða sveitarfélaganna er, hversu burðug þau eru til að taka á móti öllum þeim fjölda sem nú kemur. Við þurfum að finna nýjar lausnir því að ég hygg að ég og hv. þingmaður séum sammála um að við viljum taka vel á móti þessum börnum.