Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég sé að hann er enn svolítið fastur í fyrri atvinnu sinni, þ.e. að vera fréttamaður og hafa gaman af því sem aðrir miðlar skrifa og þeim sögum sem þar eru búnar til. Ég get ekki, og ég veit að hv. þingmaður veit það vel, endurspeglað umræðu sem á sér stað í þingflokki, enda ríkir trúnaður um þá fundi í öllum þingflokkum, alla vega er það svo í Sjálfstæðisflokknum. Ég get bara sagt það að frumvarpið er afgreitt út úr þingflokkunum öllum og mun líta dagsins ljós á þingi fljótlega. Þá léttist þessi spenna af þingmönnum sem bíða greinilega mjög spenntir eftir frumvarpinu og ég held að það sé bara af hinu góða. Ég hlakka til að taka umræðuna um það frumvarp hér. Ég hlakka líka til samstarfs við hv. þingmann í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem mun fá það frumvarp til vinnslu.

Hv. þingmaður ræðir hér aðeins frávísunarbúðir og móttökubúðir sem hafa verið í umræðunni. Ég hef tekið umræðu um það eftir að ég og hv. þingmaður heimsóttum slíkar móttökubúðir í Danmörku. Það er mín skoðun að það sé öruggara og betra fyrir flóttafólk að tekið sé á móti því á einum stað þar sem það fær þá þjónustu sem á þarf að halda. Það er mín afstaða. Það er örugglega ekkert að sjá um það í þessu frumvarpi, enda er umræðan um það kannski ekkert komin langt. Ég veit ekki einu sinni hvort það þurfi einhverjar lagabreytingar til, ég held þetta snúist fyrst og fremst um framkvæmd. En eins og bent hefur verið á áður er móttakan, það er búsetuúrræðin og þjónustan við flóttafólk, á herðum annars ráðuneytis en dómsmálaráðherra stýrir.

Ég segi fyrir mitt leyti: Ég held að það sé mikilvægt að við tökum heildstæða nálgun á þetta. Annað er útlendingalögin sjálf, atvinnuréttindin koma þar inn. En ég vil líka gjarnan taka umræðu um það hvernig við tökum á móti flóttafólki, hvernig við veitum því þá þjónustu sem það þarf á að halda og á rétt á og ekki síst hvernig við tökum á móti flóttabörnum í skólum landsins.