Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vil byrja á því sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir talaði um hér áðan í ræðu sinni og andsvörum, að það væri nú þannig ástand að gera þyrfti einhverjar breytingar. Það er vandinn í hnotskurn í þessum málaflokki þegar beðið um yfirvegaða umræðu, byggða á staðreyndum o.s.frv. — og þetta kemur frá þingmanni í ríkisstjórnarflokki og formanni allsherjar- og menntamálanefndar — að þá er sagt að það þurfi að gera einhverjar breytingar. Það er þessi skortur á nákvæmni í því hvert vandamálið er. Stjórnvöld hafa ekki getað bent á það. Það hefur verið talað um neyðarástand á landamærum — af hverju er neyðarástand? Hverjir eru það nákvæmlega sem búa til það neyðarástand? Útskýrið það fyrir okkur fyrst og þær tillögur sem þið hafið til að leysa það neyðarástand áður en þið segið bara að gera þurfi einhverjar breytingar. Það er það sem vantar í þessa umræðu til þess að hún sé yfirveguð, lausnamiðuð, byggð á staðreyndum og allt það sem stjórnarþingmenn og aðrir hafa talað um varðandi það á hverju þessi umræða eigi að byggjast.

Ef ekki er hægt að útskýra fyrir þinginu, og hvað þá þjóðinni, af hverju það er neyðarástand þá getum við aldrei komið með lausnir á því svokallaða neyðarástandi. Förum aðeins yfir það hverjar eru mögulegar skýringar á þessu neyðarástandi: Er það vegna Úkraínu, vegna þess fólks sem er að koma hingað út af stríðinu í Úkraínu? Ég skal þá alveg taka undir að það er neyðarástand. En hvers konar neyðarástand er það? Er það ekki neyðarástand sem við viljum hjálpa betur við að leysa og fá jafnvel fleiri hingað frá Úkraínu? Viljum við ekki hjálpa í því mikla neyðarástandi sem stríðið í Úkraínu skapar? Býr það til neyðarástand á landamærum Íslands? Það er þá vandamál sem við fögnum í rauninni. Við viljum taka vel á því neyðarástandi. Við viljum gera vel við það fólk sem er að koma hingað þrátt fyrir að það skapi neyðarástand á landamærum Íslands, þrátt fyrir það. Við viljum ekki stöðva fólk og losna þannig við neyðarástandið. Það skiptir öllu máli í þessari umræðu hvora lausnina við erum að tala um. Ef neyðarástandið er vegna fjölda flóttafólks frá Úkraínu þá leysum við það ekki með því að stöðva flóttafólk frá Úkraínu, ekki séns. Ef það eru tillögurnar, ef það eru þessar breytingar sem talað er um, þá erum við í miklum vanda, rosalega miklum vanda, hvað það varðar hvernig við ætlum að bregðast við stríðs- og friðarmálum í heiminum.

Ef vandinn er vegna fólks sem er að koma hingað, eins og stundum er sagt, vegna skipulagðrar glæpastarfsemi þá er það annað mikilvægt mál. Að sjálfsögðu verður manni illa við þegar maður heyrir eitthvað slíkt. Skipulögð glæpastarfsemi veldur því að fullt af fólki kemur hingað til lands í leit að hjálp, er þá sagt. En það er rangt, það er ekki byggt á staðreyndum að tala svoleiðis. Staðreyndin í því máli, varðandi það flóttafólk sem kemur hingað að einhverju leyti fyrir tilstuðlan skipulagðrar glæpastarfsemi, er sú að menn sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru að misnota aðstöðu fólks á flótta. Það er í raun og veru fólk sem er í neyð — íslensk stjórnvöld eru búin að segja já og sannfæra sig um að þetta sé vissulega fólk í neyð — og það er í enn meiri neyð út af skipulagðri glæpastarfsemi, það er í tvöfaldri neyð. Ekki erum við að fara að loka á það fólk, við leysum neyðarástandið á landamærunum ekki þannig, auðvitað ekki. Ef við ætlum að tala um þetta í alvörunni, á skipulagðan hátt, af yfirvegun og út frá staðreyndum, þurfum við að vita nákvæmlega hver vandinn er. Hingað til hafa stjórnvöld ekki getað stafað því út úr sér sem er gríðarlega mikið vandamál því að það hefur í för með sér ákveðnar afleiðingar í villandi umræðu um útlendingamál. Við vitum öll sögulega séð hvaða afleiðingar það hefur að halda uppi villandi umræðu um minnihlutahópa. Þær afleiðingar geta orðið stórkostlegar. Það hefur valdið stórum stríðum í Evrópu, svo að ekki sé meira sagt. Við skulum því vera varkár í því hvernig við tölum um viðkvæma hópa í samfélaginu, vera meðvituð um hvernig valdafólk getur með óábyrgri og ónákvæmri umræðu valdið verulegum skaða.

Varðandi þetta þingmál hins vegar, sem snertir á hvað viðkvæmasta hópnum í þessum málaflokki, fólk sem fær sérstaka vernd og sérstakt dvalarleyfi vegna neyðar sinnar, þá er það fólk sett í þann hóp að vera algerlega undir hinu opinbera komið. Það er kostnaður á bak við það. Hið opinbera segir, stjórnvöld segja: Já, við skulum taka við ykkur vegna þess neyðarástands sem þið búið við. En við skulum passa upp á að þið getið ekki leitað ykkur aðstoðar á eigin forsendum með atvinnuleyfi. Eins og farið var yfir í flutningsræðu: Já, kerfið er flókið, flækjustigið er tiltölulega mikið. En það er heimatilbúið vandamál. Það er heimatilbúið vandamál, t.d. af því að búið er að skilja á milli hver ber ábyrgð á þessum málaflokki. Hér voru búin til alls konar ráðuneyti og verkefni toguð fram og til baka og vandamálið er núna að atvinnuleyfin voru flutt frá dómsmálaráðherra yfir til félags- og vinnumarkaðsráðherra. Var það góð breyting? Líklega. En af hverju er það þá góð tillaga að dómsmálaráðherra leggi fram frumvarp sem felur í sér atvinnuleyfi sem er á borði félags- og vinnumarkaðsráðherra? Þar er verið að búa til flækjustig sem var verið að reyna að einfalda með því að aðskilja það hvort fólk fær dvalarleyfi og síðan hvort fólk fær atvinnuleyfi. Það væri að sjálfsögðu einfaldara að hafa þetta á sama stað en eins og við Píratar höfum lagt fram þá er Útlendingastofnun ekki staðurinn þar sem það ætti að ráðast. Flækjustigið er einfaldlega manngert fyrirkomulag. Þetta er í raun mjög einfalt þegar allt kemur til alls, ef fólk hefur þolinmæði til að skoða þær mismunandi leiðir sem hægt er að nota til þess að nálgast Ísland og til þess að búa hérna. Þær eru nokkrar. Það eru mismunandi ástæður fyrir því að þær eru nokkrar, þær þurfa ekki að vera svona margar en eru það samt. Þegar allt kemur til alls þarf maður bara að skoða þessar mismunandi leiðir og sjá: Þarna eru þær, það er mismunandi ferli fyrir hvert leyfi fyrir sig, ekkert svo rosalega mismunandi, það væri tiltölulega auðvelt að samhæfa þetta og einfalda kerfið. Það hefur ekki verið gerð tilraun til að leggja það fram og einfalda hlutina á þann hátt sem er merkilegt út af fyrir sig, sérstaklega ef það á að tala um einhverja heildræna nálgun. Við höfum ekki séð hana á blaði enn þá.

Ef þau frumvörp sem við höfum verið að taka til þingsins frá dómsmálaráðherra væru heildræn nálgun á það t.d. að sameina einhverjar af þessum leiðum varðandi flóttafólk og þau sem koma vegna sérstakra tengsla eða neyðar væri þetta kannski sniðugra. Þá værum við með ákveðið safnlagafrumvarp eða bandorm eins og það kallast, sem stundum spannar nokkur ráðuneyti. Þá væri kannski eðlilegra að það væri hluti af þessu frumvarpi. En það hefur ekki verið það hingað til og það gagnrýnum við.

Það gerðist hér á síðasta þingi að það voru einmitt tvö frumvörp um málefni útlendinga í gangi á sama tíma, eitt frá dómsmálaráðherra og eitt frá félags- og vinnumarkaðsráðherra. Atvinnuleyfahlutinn var hjá dómsmálaráðherra þrátt fyrir að hann ætti að sjálfsögðu að vera hjá félags- og vinnumarkaðsráðherra. Við sáum augljósan galla á fyrirkomulaginu, hvaða nefnd sér um þetta og svoleiðis — það fylgir forsetaúrskurðinum um það hver sér um hvaða verkefni, eins og stendur skýrt og greinilega í forsetaúrskurðinum varðandi dómsmálaráðuneytið. Í 27. lið er sagt að dómsmálaráðherra sjái um málefni útlendinga að frátöldum atvinnuleyfum. Þetta er rosalega skýrt. En samt er einhvern veginn verið að bjóða okkur upp á þetta fyrirkomulag. Við gerðum breytingartillögu við frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra sem var í raun þetta frumvarp. Hvað gerði meiri hlutinn? Hann sagði nei, hafnaði því, rökin voru engin. Ef það á að tala um staðreyndamiðaða, upplýsta umræðu o.s.frv. þurfa líka að fylgja rök. Það þurfa að fylgja því rök þegar sagt er að neyðarástand sé á landamærum. Það þarf að segja af hverju. Það þarf að spyrja: Hvað veldur því neyðarástandi? Það er ekki út af vegabréfaflækjum, það er ekki vegna skipulagðrar glæpastarfsemi, það er ekki vegna Úkraínu. Eða hvað? Það er ekki sagt. Þegar það er ekki sagt þá er það villandi orðræða. Það er orðræða sem skapar óöryggi af því að fólk veit ekki nákvæmlega hvað verið er að tala um. Þegar fólk veit ekki nákvæmlega hvað verið er að tala um þá fer það að ímynda sér alls konar mögulegar útskýringar. Þar lendum við í vanda. Þess vegna er svo rosalega mikilvægt, einmitt hvað þetta mál varðar, að taka það úr samhengi þess sem dómsmálaráðherra hefur verið að gera og einblína einmitt á þessi dvalarleyfi sem eru vegna mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla og passa upp á að þær tvær leiðir — eins og hefur verið lýst er almennur stuðningur við þær leiðir, þau sem hafa komið hingað upp í umræðuna telja það eðlilegt — geti einmitt leitt til atvinnuleyfis, að fólk fái sjálfkrafa atvinnuleyfi og geti séð fyrir sjálfu sér án þess að allir aðrir þurfi að borga fyrir það. Almennt séð er fólk sem getur komið til annarra landa og sótt um vernd fært um það. Fólk sem getur það ekki er því miður yfirleitt fast í slæmum aðstæðum. Það er vandamál út af fyrir sig sem þarf líka að leysa. Fólk í hjólastólum er ekkert svo rosalega duglegt við að rúlla sér yfir landamæri úr stríði o.s.frv. Það þarf að sjálfsögðu miklu meiri fyrirhöfn til eins og við þekkjum. Það eru ekki rampar þar fram og til baka yfir sprengigígana og annað. Við erum því aðallega að glíma við hóp sem getur og vill gera hlutina. Hinir eru því miður fastir þar sem vandinn er, það er eitthvað sem við ættum að horfa til líka, að passa upp á að jafnræði sé í því að allir sem eru í neyð komist frá neyð eða að neyðin sé leyst á einn eða annan hátt. Það hefur líka verið í umræðunni að við eigum að einbeita okkur að því að leysa vandann sem næst því þar sem hann er. Það er verið að gera það í rosalega stórum stíl. Langmestu af aðstoðinni, viðbrögðunum, vegna þeirra flóttamannamála sem eru í gangi núna, er beint að nærliggjandi svæðum. Við erum rétt að glíma við jaðarinn, það fólk sem hefur mesta getu til að fara sem lengst er tvímælalaust fólk sem hefur alla burði og getu til þess að vera sjálfstætt og vera virkir samfélagsþegnar á eigin forsendum frá A til Ö, enda komst það hingað alla leið norður á ísklettinn í Atlantshafinu. Það er ekkert smáræði. Fólki sem kemst hingað ætti bara að fagna. Til hamingju með að vera komin hingað lengst norður í — þið vitið hvernig þetta endar. Og takk kærlega fyrir að hugsa hlýlega til Íslands því að okkur vantar fleira fólk.