Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

130. mál
[13:25]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætt andsvar og spurningar. Það er nú einu sinni þannig að það er ýmislegt samstarf sem við tökum þátt í sem er mismikið svæðisbundið. Við tökum t.d. þátt í NATO og Norðurlandaráði og það er auðvitað þannig að þetta samstarf er alltaf að taka breytingum. Við höfum séð að samstarfið innan NATO er að taka breytingum. Nýir aðilar eru að koma inn í NATO, hluti af Norðurlöndunum. Danir eru að breyta fyrirvörum sínum varðandi aðild að Evrópusambandinu. Það eru hreyfingar sem snerta allt þetta samstarf sem við erum að taka þátt í. En það er hins vegar algerlega rétt athugað hjá hv. þingmanni, enda er hann glöggur maður, að langmikilvægasta svæðisbundna samstarfið sem er í Evrópu og stendur okkur næst er Evrópusambandið. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir að vera svona glöggur að átta sig á þessu. Það er auðvitað þannig, hvernig sem á það er litið, að það er langviðamesta samstarfið sem við tengjumst. Aðild okkar að innri markaðnum í gegnum EES-samninginn er langstærsti samningur sem við höfum gert um svæðisbundið samstarf og þarf því mesta skoðun.

Varðandi síðari spurninguna þá erum við nú einu sinni þannig gerð að þótt við þykjumst vita allt best sjálf þá þykir okkur ágætt að fá álit annarra spakra manna eins og t.d. hv. þingmanns.