Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

130. mál
[13:27]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að staðfesta það sem mig grunaði svo sem. Þetta er tillaga til að draga fram að Ísland verði að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst flutningsmenn fara óþarflega mikla fjallabaksleið að þessu, eins og köttur í kringum heitan graut. En það er fleira sem kom fram í máli hv. þingmanns og stendur í greinargerðinni sem mig langar aðeins að staldra við. Það er sú mynd sem er dregin upp af stöðu alþjóðamála, þessi gríðarlega innsýn í alþjóðamálin sem kemur fram í greinargerðinni. Þar segir, með leyfi forseti:

„Samvinna Bandaríkjanna við bandamenn sína byggist í vaxandi mæli á þeirra eigin hagsmunum en í minna mæli en áður á sameiginlegum hugsjónum …“

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Í hvaða samhengi er þessi fullyrðing sett fram? Til hvaða tíma er verið að horfa sem þessi gríðarlega mikla stefnubreyting í utanríkismálum Bandaríkjanna á að hafa átt sér stað? Er hann að tala um einhver ár eða eru þetta áratugir? Í hverju felst þessi stefnubreyting? Felst hún í að þeir eru ekki jafn duglegir í NATO? Kemur það fram í því hvernig þeir hafa leitt NATO til stuðnings við Úkraínu? Eru flutningsmenn að vísa til þess? Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Sameinuðu þjóðirnar? Það væri ágætt að fá umfjöllun um þetta.

Hitt atriðið er að það er fullyrt hér að Kína verði forysturíki á heimsvísu. Það er mikill spádómur og fróðlegt en það sem meira er þá er sagt að á eftir Kína komi Evrópusambandið, sem er vaxandi á alþjóðavettvangi og miklu áhrifameira en um getur. Til hvers er verið að vísa? Að evran hafi fallið gríðarlega gagnvart dollar á síðustu misserum? (Forseti hringir.) Orkukreppunnar í Evrópu sem á sér enga hliðstæðu? Er það sá kraftur sem Evrópa hefur fram að færa? Hvað nákvæmlega gerir það að verkum að á eftir Kína verði það Evrópusambandið sem verður leiðandi á heimsvísu?