Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

130. mál
[13:35]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar og ítrekun á fyrri spurningum sem hér hafa komið fram áður. Ég reyndi að leggja á það áherslu og útskýra það að hagsmunir stórvelda fara oft saman við okkar, t.d. fara hagsmunir okkar og Bandaríkjamanna saman í kafbátaleit hér við landið. En ég treysti mér nánast líka til að fullyrða að daginn sem Bandaríkjamenn meta það þannig að það skipti þá ekki máli að fylgjast með kafbátaumferð við Ísland þá hætta þeir henni. Þeir munu ekki halda henni áfram ef við biðjum þá um það. Það er þetta sem ég er að reyna að segja, mér finnst varhugavert að treysta um of á eitt ríki þar sem stjórnarfarið er þannig að þeir eru með gríðarlega sterkan forseta. Við höfum séð það á síðustu misserum hverju það getur breytt, eftir því hvaða forseti er við völd. Ég held að það sé alveg sama hvar við förum um heiminn og skoðum þar sem Bandaríkjamenn hafa verið einir á ferð, hvort sem það er í styrjöldum í Miðausturlöndum eða fjær, að þar hafa hagsmunir þeirra ráðið för og þegar þeir telja að þeir annaðhvort geti ekki varið hagsmuni sína, jafnvel þótt þeir hafi komið inn til að aðstoða þjóðir með hermætti sínum, eða telja að þeirra hagsmunum sé ekki lengur borgið á viðkomandi svæði þá fara þeir í burtu. Það er nú hinn kaldi veruleiki. Hagsmunagæsla Bandaríkjanna snýst um Bandaríkin sjálf. Hún fellur saman með okkar hagsmunum, (Forseti hringir.) hún fellur saman með hagsmunum Evrópuríkja í mörgum tilvikum (Forseti hringir.) og þá er auðvitað gott að eiga þá að bandamönnum, mikil ósköp.