Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

ruvframtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

130. mál
[13:40]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Enn þakka ég hv. þingmanni fyrir andsvar og góðar spurningar. Já, það er athyglisverð spurningin um að það sé vert að passa sig á eigin hagsmunum Evrópusambandsins. Vissulega hefur Evrópusambandið hagsmuni, en hvaða hagsmunir eru það? Hvað er Evrópusambandið? Það vill þannig til að þarna eru sjálfstæð fullvalda ríki, 27 talsins, eftir að Bretar fóru, sem vinna saman á grundvelli eigin sjálfstæðis og fullveldis og það eru sameiginlegir hagsmunir þessara ríkja sem ráða för. Því stjórnar enginn einn. Í því felast í senn styrkleikar og sumir myndu segja veikleikar, en ég segi kostir, að þar ræður enginn einn för, öfugt við það sem er í ríkjum þar sem hagsmunir eins ríkis ráða för og jafnvel þar sem stjórnarfar er með þeim hætti að það getur verið mjög fallvalt að treysta á hvað gerist í þeim ríkjum. Ég tel það einmitt höfuðkost að vera í slagtogi þar sem sameiginlegir hagsmunir ráða för, almannahagsmunir Evrópubúa, en ekki sérhagsmunir einstakra ríkja, jafnvel þótt stór og voldug séu. Ég held að það sé mun betri kostur fyrir okkur Íslendinga að halla okkur að því og taka þátt í því starfi af einurð og alvöru.