Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:04]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég hafði samráð og ræddi m.a. við framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum þegar ég vann þessa tillögu og leist framkvæmdastjóranum vel á hana. (GE: Hún er ekki kjörinn fulltrúi.) Það er alveg rétt, hún er ekki kjörinn fulltrúi, en engu að síður starfsmaður sveitarfélaganna og hins sameiginlega vettvangs sveitarfélaganna. Ég hef líka rætt þetta við bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ, þó ekki alla, en mér er það mjög til efs að kjörnir fulltrúar í Reykjanesbæ verði á móti þessari tillögu. Við höfum oft rætt að Suðurnesin hafi orðið algjörlega út undan. Þegar verið er að tala um flutning opinberra starfa á landsbyggðina hafa Suðurnesin alltaf setið á hakanum. Hér er verið að reyna að bæta úr því og ég styð heils hugar að Vinnumálastofnun verði líka flutt til Suðurnesja. (Forseti hringir.) Ég held það væri bara ágætt að hv. þingmaður myndi flytja slíka tillögu og ég vildi svo sannarlega vera meðflutningsmaður á henni.