Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:12]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem hér hafa talað fyrir, það er gott að fá tækifæri til að ræða aðeins um þetta mál. Það sem ég myndi vilja segja í upphafi er að auðvitað er mjög gott ef hægt er að flytja stofnanir út á land. Það er ekkert sem segir að stofnanir samfélagsins þurfi að vera á sömu þúfunni á höfuðborgarsvæðinu. En það þarf þá að líta til alls konar hluta og auðvitað til þess hvað vinnst með flutningnum, t.d. fyrir það svæði sem tekur við viðkomandi stofnun. Það væri þá Reykjanesbær í þessu tilviki. Síðan auðvitað hvaða áhrif það hefur á þjónustuþegana, hvort við séum að búa til meira óhagræði fyrir fleiri eða hvort fleiri séu í raun og veru að fá hagræði út úr flutningnum.

Ég saknaði þess pínulítið í greinargerðinni — ég tek þó undir það sem hér hefur verið sagt að auðvitað er þetta mál flutt af þeim drifkrafti að vilja efla svæði þangað sem stofnunin verður flutt — að sjá ekki aðeins ítarlegri greiningu á því og umfjöllun um það hvaða áhrif þetta hefði á þjónustuþegana. Það hefur aðeins verið komið inn á það hjá hv. þingmönnum sem hafa farið í andsvör á undan mér. Við erum með tiltekinn fjölda sem nýtir sér þjónustuna sem býr í Reykjanesbæ og auðvitað skapar nálægðin við flugvöllinn ákveðið hagræði eins og bent hefur verið á. En ég velti því fyrir mér hvort í þessu tilfelli sé óhagræðið fyrir miklu stærri hóp en þann sem mun njóta hagræðis af flutningnum. Ég ætlaði að athuga hvort hv. flutningsmaður væri tilbúinn til að leggja eitthvert mat á það.