Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:43]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var innblásin ræða og gaman að hlusta. Ég ætla nú bara að segja hér: Ég deili ekki skoðunum hv. þingmanns hvað varðar móttöku flóttafólks. En ég held við séum sammála um viðkvæmt svæði sem er flugvallarsvæðið, gamla varnarsvæðið sem er kallað Ásbrú í dag, sem er svæði í uppbyggingarfasa. Verið er að búa til nýtt svæði þar sem áður var her og byggja það upp sem hluta af samfélaginu. Því miður hefur Reykjanesbær lent í vandamálum vegna Útlendingastofnunar. Útlendingastofnun og Reykjanesbær hafa tekist á um með hvaða hætti starfsemi Útlendingastofnunar á þessu svæði ætti að vera, því miður. Ég segi bara: Sporin hræða.

Fyrir mitt leyti hef ég í sjálfu sér engan áhuga á að fá Útlendingastofnun suður með sjó. Ég er til í að fá margt annað en ekki Útlendingastofnun. Ég held það sé rétt, af því að menn hafa talað um armslengd, að það sé ákveðin armslengd á milli þess staðar sem flóttamenn koma inn og þar sem verið er að takast á um þjónustuna við þá. Sveitarfélagið hefur bara orðið undir í samskiptum við Útlendingastofnun. Ég vil bara biðja hv. þingmann um að fara aðeins yfir þetta með mér, því okkur langar til að byggja upp Ásbrú sem hluta af Reykjanesbæ en þó þannig að við séum með sterka innviði og þetta verði bæjarhluti sem við getum verið stolt af og séum ekki sýknt og heilagt að tala niður.