153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

verkferlar um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

17. mál
[14:59]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um verkferla um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna. Auk mín eru það hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem eru flutningsmenn tillögunnar, þau Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Ingibjörg Isaksen, Iða Marsibil Jónsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson.

Tillagan sem ég mæli hér með fyrir er sú að Alþingi álykti að fela mennta- og barnamálaráðherra að vinna að aðgerðaáætlun um verkferla um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna. Sú vinna verði unnin í framhaldi af vinnu starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um mótun leiðbeininga fyrir starfsfólk skóla í tengslum við framkvæmd reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Samkvæmt erindisbréfinu þá átti sá starfshópur að skila af sér vinnu 15. ágúst síðastliðinn en ég hef heimildir fyrir því að vinna hópsins sé enn í gangi. Samkvæmt þeirri tillögu sem hér er mælt fyrir er lagt til að aðgerðaáætlunin verði mótuð á grunni nýrra farsældarlaga og byggð upp sem stuðningskerfi í kringum börn og ungmenni, fjölskyldur þeirra og starfsfólk skólakerfisins. Samráð verði haft við heilbrigðisráðherra, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Háskóla Íslands og aðra hagaðila við gerð aðgerðaáætlunarinnar. Samkvæmt tillögunni skal mennta- og barnamálaráðherra leggja aðgerðaáætlun um verkferla fyrir Alþingi eigi síðar en í maí 2023.

Samkvæmt greinargerð sem fylgir þessari tillögu eru markmið tillögunnar þau sem ég hef farið yfir hér að framan, en tilurð tillögunnar er byggð á grunni rannsóknar sem Soffía Ámundadóttir gerði til M.Ed.-prófs í stjórnun menntastofnana. Félag háskólakvenna var með hádegisfund á dögunum þar sem Soffía kynnti helstu niðurstöður rannsóknarinnar og heiti rannsóknarritgerðarinnar er: Við sættum okkur ekki við ofbeldi. Um er að ræða eiginlega rannsókn sem er byggð á reynslu skólastjórnenda í Reykjavík. Í rannsóknarritgerðinni kemur í ljós að líkamlegt ofbeldi grunnskólabarna færist í aukana og verður sífellt grófara. Eins og áður segir var rannsóknin gerð meðal skólastjórnenda í Reykjavík sem segja þetta þróun sem þeir finni fyrir í störfum sínum. Skólastjórnendur segja algjöran skort á stuðningi og miðstýrðum verkferlum. Það er mikil áskorun fyrir skólasamfélagið að takast á við þessi mál sem eru oft erfið og viðkvæm og taka verulega mikið á. Það gera þau fyrir alla hlutaðeigandi; foreldra, forráðamenn, aðstandendur, starfsmenn skólans og auðvitað barnið sjálft.

Þau börn og ungmenni sem eru í þessari flóknu stöðu beita ofbeldi m.a. vegna vanlíðunar, kvíða, þunglyndis og slakrar félagsfærni. Þess vegna er mikilvægt að vinna áfram með þann megintilgang farsældarlaganna að auka þverfaglegt samstarf innan þeirra kerfa sem veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu, ásamt því að efla fyrirbyggjandi aðgerðir í málefnum barna með fjölþættan vanda, efla stuðning við fjölskyldur, auka fræðslu með virkri sí- og endurmenntun fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og fjölga aðgerðum og leiðum til lausna börnum til hagsbóta

Allir skólastjórnendur sem tóku þátt í rannsókninni voru sammála um að skortur sé á fræðslu og ofbeldisforvörnum. Skólastjórnendur voru jafnframt sammála um að það vantaði miðstýrða verkferla, að skortur sé á skráningum og viðbragðsáætlunum. Samkvæmt rannsókninni upplifir margt starfsfólk skóla stundum óöryggi og vantar verkferla og verkfæri þegar takast þarf á við krefjandi aðstæður. Þess vegna er mikilvægt að koma fram með viðurkenndar aðferðir sem taka á ógnandi hegðun og ofbeldishegðun og koma inn með markvissa fræðslu fyrir börn, ungmenni, fjölskyldur þeirra og starfsfólk skólakerfisins.

Í þessu samhengi er mikilvægt að líta til 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Með leyfi forseta, vil ég fá að lesa upp hluta af þessari grein reglugerðarinnar sem vísað er til hér í tillögunni en hluti af 13. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum er eftirfarandi:

„Ef starfsfólk skóla metur að háttsemi nemenda leiði af sér hættu fyrir samnemendur og/eða starfsfólk skóla ber starfsfólki skylda til að bregðast tafarlaust við slíku með líkamlegu inngripi til að stöðva nemanda. Líkamlegu inngripi skal aðeins beitt í ítrustu neyð og eingöngu þegar ljóst er að aðrar leiðir duga ekki til að forða nemanda frá því að skaða sig og/eða aðra. Starfsfólki skóla er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Skal þess ávallt gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Láta skal tafarlaust af inngripi er hættu hefur verið afstýrt. Skólastjóri skal sjá til þess að atvik samkvæmt þessari málsgrein séu skráð og varðveitt í skólanum svo og ferill máls og ákvarðanir sem teknar eru í kjölfarið, í samræmi við lög um persónuvernd nr. 77/2000. Atvikaskráning skal fela í sér lýsingu á aðdraganda, atburðinum sjálfum og mati á þeirri hættu sem orsakast hefði af athafnaleysi.

Mikilvægt er að starfsfólk vinni ekki eitt við slíkar aðstæður og kalli eftir aðstoð annars starfsfólks skólans eða viðeigandi utanaðkomandi aðstoð, t.d. frá lögreglu, heilsugæslu eða öðrum eftir atvikum.“

En þrátt fyrir þessa skýru grein reglugerðarinnar hefur skort faglegan stuðning og samþætt úrræði fram til samþykktar farsældarlaganna. Farsældarlögin fyrirskipa um samþættingu þjónustu allra þeirra sem vinna að þjónustu og kennslu barna og byggja þarf upp miðstýrða verkferla um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

En hvers vegna stöndum við frammi fyrir þeirri stöðu sem uppi er? Undanfarið höfum við verið að heyra fréttir af börnum og ungmennum sem líður illa og við heyrum hræðilegar fréttir af stöðu þeirra. Við heyrum fréttir af börnum og ungmennum sem stunda skipulagt ofbeldi, alls konar ofbeldi, stafrænt ofbeldi. Börn sem eru hinsegin eru beitt ofbeldi. Einnig virðist vera orðið nýtt „trend“ meðal barna og ungmenna að beita rasísku ofbeldi og virðist vera töluvert um það. Innan veggja skólanna okkar er aukning á ofbeldi og það verður sífellt grófara. Kennari sem tók þátt í rannsókninni segir að samfélagið verði að vakna til meðvitundar um alvarleika málsins. Það sé ekki eðlilegt að við séum að missa starfsfólk skólanna í örorku vegna ofbeldis nemenda en því miður þekkist það.

Rauði þráðurinn í svörum skólastjórnenda er sá að málaflokkurinn sé í algjörum ólestri. Samkvæmt rannsókninni sem vísað er til hér og greinargerðin byggist á alfarið þá vantar verkferla, vantar miðstýrða verkferla og stuðning. Staðreyndin er bara sú að við verðum að bregðast við fyrir börnin okkar og þeirra líðan og þeirra framtíð. Við sem samfélag verðum að taka höndum saman og þá á ég við okkur öll; stofnanir samfélagsins, fyrirtæki í okkar ágæta samfélagi, foreldrasamfélagið, forráðamenn, aðstandendur barna, skólasamfélagið. Við getum ekki lokað augunum. Við getum ekki látið eins og allt sé í lagi á meðan það er það ekki. Við getum ekki heyrt fleiri fréttir af enn meiri aukningu af slæmri líðan ungmenna og barna sem gæti birst m.a. í enn meiri aukningu á ofbeldi af ýmsu tagi. Núna er kominn tími aðgerða. Það er ekkert okkar undanskilið ábyrgð í þeim efnum að stíga inn í og grípa inn í.

Ég vil trúa því að samræmdir og miðstýrðir verkferlar sem auka þverfaglegt samstarf innan þeirra kerfa sem veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu, ásamt því að efla fyrirbyggjandi aðgerðir sem eru afar mikilvægar í málefnum barna með fjölþættan vanda, efla stuðning við fjölskyldur, auka fræðslu fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og fjölga aðgerðum og leiðum til lausna börnum til hagsbóta, muni skila okkur í rétta átt. Það er vegna þess sem ég legg fram þessa þingsályktunartillögu ásamt meðflutningsmönnum mínum.

Nú hef ég gert grein fyrir málinu og legg til að það verði allsherjar- og menntamálanefnd sem taki það til umfjöllunar.