Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

verkferlar um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

17. mál
[15:15]
Horfa

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir að fá að taka þátt í þessari umræðu hér í dag. Ég tek undir með hv. þingmönnum að fréttir gærdagsins voru sláandi fyrir okkur öll en fyrir okkur sem vinnum að mannréttindamálum og látum okkur mannréttindi jaðarhópa varða þá koma þessar fréttir kannski ekki sérstaklega á óvart. Við höfum auðvitað lengi rætt um bakslag í baráttu hinsegin fólks, fötluð börn og ungmenni hafa lengi sætt mismunun og fordómum án þess að það hafi verið neitt sérstaklega rætt, í raun normalíserað, og aukinn rasismi í samfélaginu þar að auki. Á sama tíma og við förum í sterkt inngrip í öllum stofnunum sem þjónusta börn þurfum við að fara að efla mannréttindafræðslu í skólum því að það er auðvitað lykillinn að því að stöðva þetta gegndarlausa ofbeldi og einelti. Og ég spyr mig einmitt: Hvers vegna erum við komin á þennan stað? Hvað hefur gerst í samfélagi okkar á síðustu kannski tíu árum sem hefur leitt til þess að börnin eru tilbúin til að beita svo gegndarlausu ofbeldi að maður trúir því eiginlega ekki?

Ég vil spyrja hv. þingmann um afstöðu hennar til þess að auka um leið fræðslu fyrir börn, foreldra og starfsfólk um mannréttindi, stétt og stöðu fólks til að vinna gegn þessu meini.