Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

verkferlar um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

17. mál
[15:17]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur fyrir andsvarið og tek bara undir það sem hún segir. Ég er með gríðarlegar áhyggjur af þessu bakslagi sem við erum að sjá varðandi aukningu á ofbeldi, í orðræðum, á samfélagsmiðlum og í hinum ýmsu birtingarmyndum þar sem börn og ungmenni, og ekki bara þau heldur fullorðið fólk því miður líka, eru með fordóma gagnvart hinsegin fólki, gagnvart fólki með fötlun, gagnvart öðrum kynþáttum og öðru slíku. Ég vil bara taka undir það sem hv. þingmaður segir, að við þurfum alltaf að vera dugleg að efla fræðslu. Kannski höfum við sofnað á verðinum í einhvern tíma, í of langan tíma, ég veit það ekki. Við höfum öll gott af því að líta inn á við og skoða: Hvað gerðum við, hvað gerðum við ekki og hvernig eigum við að stíga næstu skref ? En eitt er víst að við verðum að komast á betri stað. Við getum ekki bara lokað augunum og eyrunum og látið sem þetta sé ekki þróun sem sé í gangi og haldið bara áfram óbreyttu plani heldur verðum við að stíga inn. Ég held að það sé mikilvægt að þetta verði einnig rætt í þeirri nefnd sem tekur málið til umfjöllunar.