Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

verkferlar um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

17. mál
[15:22]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Við ræðum mjög tímabært mál, tillögu til þingsályktunar um verkferla og snúa þeir að viðbrögðum við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna. Við sem höfum verið að fylgjast með fréttum að undanförnu getum ekki hafa farið varhluta af því að standa að einhverju leyti agndofa frammi fyrir því að unga fólkið okkar skuli vera að beita hvert annað ógnandi hegðun. Við vitum að um langt skeið höfum við séð teikn á lofti um að ógnandi hegðun barna og ofbeldi þeirra á milli, og einnig gagnvart kennurum og starfsmönnum skóla og jafnvel annarra í samfélaginu, jafnvel gagnvart foreldrum og systkinum, sé að aukast.

Hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir fór mjög vel yfir tillöguna og því vil ég ekki bæta miklu við hana. Hún er mjög greinargóð en þar er auðvitað fyrst og fremst verið að leggja áherslu á það að veita þeim sem vinna með börnum verkferla til að takast á við þessa ógnandi hegðun sem getur verið fjölbreytt og málin geta verið afar krefjandi, ekki bara fyrir þolendur heldur líka fyrir gerendur og þá sem að þeim standa.

Umfjöllun um mál ungrar stúlku í fréttum og Kastljósi í gær hefur skilið þjóðina eftir slegna og leyfi ég mér að segja að í mínu tilfelli finnst mér nauðsynlegt að líta í eigin barm og held að foreldrar á Íslandi ættu svo sannarlega að gera það á þessum tímapunkti. Við sjáum notkun m.a. samfélagsmiðla, áhrif af alls kyns efni á vefnum, ógnandi áhrif tækninnar á börnin okkar sem í mörgum tilfellum eiga erfitt með að höndla hana. Samfélagsmiðlarnir eru margir hverjir með aldurstakmörkunum sem fæstir virðast vita um. Það þýðir að það er verið að leggja tól og tæki í hendurnar á ungum börnum sem jafnvel framleiðendurnir sjálfir eru búnir að segja að henti ekki þeim aldurshópi heldur séu fyrir eldri börn og unglinga.

Einn af okkar helstu góðgerðarmönnum á undanförnum árum sem unnið hefur að mikilvægum verkefnum varðandi það að rampa upp Ísland nefndi það í nýlegu viðtali sem tekið var við hann af því tilefni að hann teldi að tækninni fleytti það hratt fram að við raunverulega vissum ekki alveg hvað við værum með í höndunum. Ég held að það sé að mörgu leyti rétt. Þó er það þannig að tækniframfarir eru að mörgu leyti til góðs en ef við náum að höndla tæknina og tryggja að hún skaði ekki er sigurinn unninn. Við eigum að mínu áliti ekki að banna alfarið ákveðna notkun. Við eigum að fara eftir þeim reglum sem fyrirtækin eru að setja og við eigum að setja okkur reglur, fyrir börnin okkar til að fara eftir. Þá erum við fullorðna fólkið fyrirmyndin.

Hér er talað um þverfaglegt samstarf og það er gríðarlega mikilvægt í menntakerfinu. Þverfaglegt samstarf er oft hugsað milli stofnana, milli tveggja skóla eða ráðuneyta, en hér þurfum við samtal á milli fjölskyldu og menntakerfis og samfélags. Fjölskyldan er hornsteinn í samfélagi okkar og það kom ég með, frú forseti, sem innlegg inn í þessa umræðu í gær, hversu mikilvægt er að samveran og samtalið eigi sér stað innan veggja heimilisins. Hér er m.a. lagt til að veita tól og tæki, að veita leiðir til að takast á við vandann þegar hann gerist en ekki síður að beita ofbeldisforvörnum. Forvarnir í þessu tilliti skipta gríðarlega miklu máli, að koma í veg fyrir óæskilega hegðun áður en hún skýtur rótum, áður en hún er komin inn í hópinn sem getur verið svo hættulegt, áður en við erum farin að sjá múgsefjun hjá ungum börnum, að við tökum samtalið og tryggjum að forvarnirnar séu ekki bara innan skólakerfisins heldur einnig innan veggja heimilisins.

Það er enginn skortur á því, frú forseti, að við viljum gera mun betur og ég er sannfærður um að við getum gert það. Hér erum við að leggja lóð á þær vogarskálar. Við þurfum meiri umræðu. Við þurfum, eins og hér kemur fram, að leita gagnrýndra upplýsinga um hvernig við getum tekið á vandanum. Við þurfum að horfa til þeirra rannsókna og þeirra leiða sem gefist hafa vel við að taka á vanda sem þessum. Ég held og leyfi mér að segja að samfélagið okkar sé farið að hlaupa ansi hratt. Þar er ég eflaust engin undantekning þegar kemur að því að vera með mörg járn í eldinum. En börnin okkar eru það mikilvægasta sem við eigum og við þurfum að tryggja velferð þeirra. Það eru þau sem landið erfa og við sjáum gríðarlega stór stökk tekin í því að hlúa að börnum innan menntakerfisins og taka mið af einstaklingsbundnum þörfum þeirra til menntunar. Sama þurfum við að gera varðandi hegðun. Hér hefur komið fram í umræðunni, og var virkilega gott að heyra, hversu mikilvægt er að horfa til mismunandi hópa í þessu tilliti. Við erum íslensk þjóð með alls kyns fjölbreytta hópa innan samfélagsins. Allir eru þessir hópar mikilvægir og lita samfélag okkar fallegum litum. Við þurfum þess vegna að hafa tækin og tólin og við þurfum að hafa forvarnirnar í fyrsta sæti, taka umræðuna, vera upplýst og hræðast ekki.