Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

verkferlar um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

17. mál
[15:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég ætlaði aðeins að koma örstutt inn í þessa umræðu sem er mjög mikilvæg og ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur sérstaklega fyrir þessa mjög svo góðu og þörfu tillögu. Þetta eru orð í tíma töluð, eins og sagt er. Það er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni hvernig ofbeldi barna í grunnskólum færist í aukana og verður sífellt grófara. Það hefur komið í ljós, eins og kemur fram í tillögunni, að kennarar eru jafnvel orðnir óttaslegnir og það er skortur á stuðningi, miðstýrðum stuðningi sem ætti þá að koma frá stjórnvöldum, í því hvernig bregðast eigi við þessum málum. Ég held að slíkur stuðningur sé afar mikilvægur og þess vegna fagna ég mjög þessari tillögu og vona að aðgerðaáætlunin, sem hér er lagt upp með að verði skilað til Alþingis á næsta ári, á vormánuðum, verði það tæki sem hægt er að horfa til til að reyna að sporna við þeirri þróun sem hefur færst í aukana og er mikið áhyggjuefni.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt, og vonandi kemur það fram í þessari aðgerðaáætlun, að foreldrar sleppi kannski ekki alveg hendinni af börnum sínum þegar þau eru komin á unglingsár. Nú er ég kannski ekki að tala um að vera í einhverju eftirliti gagnvart þeim heldur er mikilvægt að foreldrar séu í góðum tengslum við barnið sitt og tali um þessa hluti við barnið, að það sé t.d. ekki eðlilegt að pósta ofbeldi á samfélagsmiðlunum, eins og við höfum séð gerast, að barnið taki alls ekki þátt í slíkri dreifingu. Unglingar eru að beita hvert annað ofbeldi og svo er það efni sett í dreifingu. Þetta er eitt af þeim vandamálum sem fylgja samfélagsmiðlunum, því miður, þ.e. þetta stafræna ofbeldi sem er náttúrlega samfélagsmein. Þó að margt sé jákvætt við samfélagsmiðlana þá er þetta einn af þeim þáttum sem eru afar neikvæðir, þetta stafræna ofbeldi. Við sjáum líka birtingarmyndir þess að verið er að beita börn einelti á samfélagsmiðlunum. Börn eru að beita hvert annað einelti og það einelti getur líka falist í útilokun á samfélagsmiðlunum. Þetta er allt vandmeðfarið og ég vona að þetta verði allt saman skoðað í þessari vinnu.

Við höfum séð sláandi fréttir um ofbeldi af þessu tagi og þess vegna er þessi tillaga orð í tíma töluð. Það er mikið áhyggjuefni að mínum dómi þegar skólastjórnendur og kennarar eru farnir að upplifa óöryggi í starfi sínu. Það er eitthvað sem við verðum að taka föstum tökum þannig að kennarar óttist ekki að mæta í vinnuna og dragast einhvern veginn inn í ofbeldi af þessu tagi. En það eru kannski fleiri aðilar en skólarnir sem ættu að koma að þessu. Ég held að kirkjan gegni töluvert mikilvægu hlutverki í því að fræða börnin um þessa hluti. Fermingarfræðsla er sem dæmi mjög vel sótt og þar er tækifæri. Börnin eru á góðum aldri, þau eru á þeim aldri að meðtaka vel þessa hluti. Að ræða þessa hluti þar — ég held að það sé vettvangur sem við ættum að horfa til. Kirkjan hefur gert margt gott í barna- og unglingastarfinu og einmitt talað út frá náungakærleikanum, að ofbeldisfull hegðun af þessu tagi sé ekki liðin. Slík hegðun nær margfaldri útbreiðslu með samfélagsmiðlum sem gerir það að verkum að fleiri þátttakendur verða í ofbeldinu. Það er verið að pósta þessu og dreifa um allt netið þannig að áhrifin verða margföld. Þetta er eitthvað sem þarf sannarlega að fara vandlega yfir.

Það má líka ræða notkun snjallsíma í skólum og annað slíkt. Farið er að bera á því að skólastjórnendur séu farnir að takmarka notkun á snjalltækjum í skólum. Mér finnst það vera af hinu góða. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum líka að skoða, hvort ekki ætti að vera eitthvert samræmt regluverk í grunnskólum um notkun á snjallsímum. Mér finnst að það gæti verið eitthvað sem hægt væri að horfa til í þeirri vinnu sem er fram undan og yrði kannski hluti af þessari verkáætlun. Ég er ekki sérfræðingur á þessum sviðum en maður veit hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig á þessum aldri. Flestöll börn eiga þessa síma og eru mikið að nota þá og það er eitthvað sem við þurfum líka að horfa til að mínum dómi. Uppsprettan og hugmyndirnar koma líka frá ofbeldismyndböndum og öðru slíku sem krakkarnir eru að horfa á. Það hefur áhrif á þau og getur síðan verið birtingarmynd þess ofbeldis sem við höfum séð.

Frú forseti. Að þessu sögðu vil ég enn og aftur þakka fyrir þessa tillögu. Ég vona að hún fái góða umfjöllun og að þeir sem best til þekkja í þessum málaflokki verði kallaðir til þannig að hægt sé að leggja þessa aðgerðaáætlun fram sem er svo sannarlega tímabær. Ég vona að okkur takist að vinna bug á þessu vandamáli sem er því miður vaxandi, þ.e. þegar ungmenni eru að beita hvert annað ofbeldi á netinu, á samfélagsmiðlunum. Þetta er vandamál sem er vaxandi og við verðum að bregðast við. Þess vegna fagna ég mjög þessari tillögu.