Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

gjaldfrjálsar heilbrigðisskimanir.

148. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Ég mæli hér í annað sinn fyrir máli sem yrði til mikilla hagsbóta fyrir allan almenning á Íslandi og líklega fyrir ríkissjóð um leið. Með því myndum við búa til sérstöðu fyrir Ísland á sviði heilbrigðisþjónustu, sérstöðu þar sem við værum að nýta þau tækifæri sem gefast með því að vera fámenn, samheldin en vel stæð þjóð sem á að geta passað upp á alla einstaklinga samfélagsins.

Hér er um að ræða tillögu til þingsályktunar um gjaldfrjálsar heilbrigðisskimanir. Hún hljóðar svo: Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við að innleiða heilbrigðisskimun fyrir alla 40 ára og eldri á þriggja ára fresti þeim að kostnaðarlausu. Ráðherra upplýsi Alþingi um framgang vinnu við innleiðingu heilbrigðisskimana á vorþingi 2023. Ástæðan fyrir því að við leggjum það fram með þessum hætti, sem þingsályktunartillögu, og felum ríkisstjórninni að framfylgja þessu fremur en að leggja þetta fram sem lagafrumvarp, er auðvitað fyrst og fremst sú að við höfum séð að það er ekki mikill hljómgrunnur fyrir því hér á Alþingi að samþykkja lagafrumvörp stjórnarandstöðuþingmanna en með þessu móti getur ríkisstjórnin í raun gert þetta mál að sínu. Hún getur klárað útfærsluna og hrint þessu í framkvæmd og má mín vegna alveg þakka sjálfri sér það. Aðalatriðið er að af þessu verði því að þetta mun hafa mjög veruleg áhrif á lífsgæði Íslendinga og jafnvel lífaldur. Það er þekkt að þeir sem hafa efni á því, og eins hátt sett fólk í stjórnmálum og fyrirtækjum í mörgum löndum, er reglulega sent í heilbrigðisskimun til að kanna hvort það sé aukin hætta á hinum ýmsu sjúkdómum eða jafnvel að þeir séu þegar komnir. Með þessari tillögu er lagt til að allir Íslendingar 40 ára og eldri eigi rétt á þessari þjónustu. Við getum gert þetta vegna þess að í fyrsta lagi þá höfum við efni á því. En í öðru lagi er það nú segin saga, og ég hef ekki heyrt marga andmæla því, að besta fjárfestingin í heilbrigðismálum er forvarnir og lýðheilsa, lýðheilsustefna og forvarnir. Það skilar ávinningi og þar með talið efnahagslegum ávinningi þótt það sé ekki meginmarkmið þessa frumvarps. En ef við trúum því raunverulega að forvarnir séu besta fjárfestingin og feli ekki í sér raunverulega kostnaðaraukningu heldur frekar sparnað þá mun þessi tillaga ekki kosta neitt. Hún mun spara samfélaginu öllu peninga og tryggja betri heilsu og lengra líf Íslendinga.

Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er einmitt lögð mikil áhersla á að fyrirbyggja sjúkdóma og auðvelda fólki að lifa heilbrigðu lífi, tala um lýðheilsu, mikilvægi hennar. Svoleiðis að þessi tillaga fellur mjög vel að þessum mikilvægu markmiðum heilbrigðisstefnunnar og ætti því að vera í lófa lagið fyrir ríkisstjórnina að gera þetta að veruleika í samræmi við þá heilbrigðisstefnu sem þegar hefur verið samþykkt, þar sem þó vantar inn í aðferðirnar til að tryggja lýðheilsu og sem mestan árangur á sviði forvarna.

Ástæðan fyrir því að hér er talað um fólk 40 ára og eldra er sú að það er viðmið sem víða er notað um það hvenær tilefni sé til að fara að leita reglulega eftir heilbrigðisskimunum, heimsækja lækna eða fara í rannsóknir til að fylgjast sérstaklega með heilsunni. Þó er gert ráð fyrir því að yngra fólk geti sótt sérstaklega um að fara í svona skimun og eins að í samráði við lækna geti menn sótt um að fara oftar en á þriggja ára fresti þegar sérstakt tilefni þykir til. Með þessu móti má ætla að hinir ýmsu sjúkdómar fyndust á fyrri stigum og hægt yrði að grípa inn í fyrr, þar með auka lífsgæði og lífslíkur fólks í sumum tilvikum og um leið spara heilbrigðiskerfinu það fjármagn sem ella færi í það að veita það sem ég tel að sé almennt viðurkennt, dýrari þjónustu. Þjónusta sem kemur til á síðari stigum er almennt talin dýrari en það sem hægt er að gera þegar gripið er inn í tæka tíð. Þetta er því ekki bara spurning um að finna hugsanlega sjúkdóma heldur einnig um þá áminningu sem í þessu felst, hvatningu og fræðslu til fólks um hvernig það geti breytt lífsstíl sínum, hagað hlutum aðeins öðruvísi, hvað þurfi að passa sérstaklega og með því móti reglubundin áminning til allra Íslendinga um hvernig þeir geti bætt heilsu sína út frá þeirri upplýsingagjöf sem af þessu myndi fylgja.

Gert er ráð fyrir því að þótt ríkið fjármagni þetta og spari með því, eins og ég nefndi áðan, þá verði þetta ekki eingöngu á vegum opinberu heilbrigðisstofnananna heldur geti allar heilbrigðisstofnanir, sama hvert rekstrarform þeirra er, tekið þátt í þessu uppfylli þær skilyrði. Þá geti sjúklingarnir eða viðskiptavinirnir, skulum við kalla þá, einfaldlega valið hvert þeir vilja fara í sína skimun. Með þessu skapast samkeppni, jákvæð samkeppni á sviði heilbrigðisþjónustu þar sem sjúklingar, viðskiptavinir, munu velja að fara á þá staði þar sem þjónustan er góð að þeirra mati fremur en aðra. En þetta er líka gott fyrir heilbrigðisgeirann. Heilbrigðisstarfsfólk hefði meira svigrúm til að velja sér vinnustað og úr þessari samkeppni og uppbyggingu sem gæti orðið í kringum þetta í heilbrigðiskerfinu myndi eflaust spretta nýsköpun á öðrum sviðum. Þannig gæti fólk í heilbrigðisþjónustu haft aukna valmöguleika um vinnustað en um leið færi af stað aukin nýsköpun á þessu sviði og ómögulegt að segja til um hversu langt það myndi ná, hversu mikið yrði byggt á því. En þetta er a.m.k. mjög góður grunnur til að koma af stað samkeppni og nýsköpun á sviði heilbrigðisþjónustu.

Þetta mál hefur verið flutt hér einu sinni áður eins og ég nefndi strax í upphafi og byggir raunar á kosningastefnu, kosningaloforðum Miðflokksins fyrir síðustu kosningar. Ég vona að í þessari umferð fái það að hraðari framgang hér á þinginu en síðast og minni á að við erum í rauninni að bjóðast til þess að láta þetta upp í hendurnar á ríkisstjórninni og fela henni að framkvæma í samræmi við þetta. Ég vona að ríkisstjórnin muni geta tekið við hugmynd, góðri hugmynd, og unnið úr henni, sama hvaðan hún kemur því að þetta er mál sem varðar ekki aðeins fjármál, fjárhag ríkissjóðs heldur varða heilsu og jafnvel líf Íslendinga. Ég er sannfærður um að af ef að þessu yrði yrði lífaldur Íslendinga aftur sá mesti í heimi að jafnaði eða að meðaltali og lífskjör og líðan fólks yrði líka betri hér en verið hefur.

Til að gera langa sögu stutta, frú forseti, virðist mér að það sé allt jákvætt við þetta frumvarp. Það felur ekki í sér aukin ríkisútgjöld, það bætir heilsu og eykur lífslíkur landsmanna og það eykur á nýsköpun og tækifæri á sviði heilbrigðisþjónustu. Ég hvet því ríkisstjórnarflokkanna eindregið til að taka vel í þetta mál, láta það ekki deyja aftur í nefnd heldur meta kosti þess og fallast á að taka við verkefninu og innleiða það.

Að því sögðu legg ég til að málið gangi til hv. velferðarnefndar.