Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

84. mál
[17:27]
Horfa

Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli nú fyrir þingsályktun þessari í þriðja sinn en alls hefur hún verið flutt fimm sinnum, tvisvar sinnum af Sigurði Páli Jónssyni á 150. og 151. löggjafarþingi. Ég vakti á því athygli þegar ég flutti málið síðast að vegagerð um Skógarströnd hafi lengi verið til umfjöllunar en samkvæmt heimildum þar um var fyrst fjallað um veginn hér á Alþingi árið 1931. Þá voru uppi áform um brúargerð við Svelgsá og tók sú brúargerð á annan áratug að komast til framkvæmda. Hér er mælt fyrir því að kanna hagkvæmni þess að leggja um Skógarstrandarveg bundið slitlag á heilsársvegi og er það von mín nú þegar fimm ár eru liðin frá því að málið var fyrst á dagskrá, að það hljóti afgreiðslu fyrr en brúarframkvæmdir við Svelgsá forðum.

Í ljósi þess að tillagan hefur ekki hlotið afgreiðslu skal á það bent að ástand Skógarstrandarvegar er enn áþekkt að stærstum hluta því sem var fyrir fimm árum síðan þegar hún var fyrst flutt og í raun ekki mikið betra á stóru köflum en vegurinn var fyrir 50 árum síðan. Áform um vegbætur gera ekki ráð fyrir nema takmörkuðum endurbótum í bráð. Samkvæmt samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 er áætlað að heildarkostnaður við framkvæmdir á Skógarstrandarvegi sé 4 milljarðar kr. Langstærstur hluti þeirrar upphæðar, 3,1 milljarður, er áætlaður í verkið á þriðja tímabili áætlunarinnar, árin 2030–2034. Í fyrsta lagi eftir átta ár og í síðasta lagi eftir 12 ár ef allt gengur upp. Ekki liggur fyrir hvenær áætlað er að verkinu verði lokið. Það er óhætt að áætla að fari sem fari þurfi jafnvel að bíða lengur en eftir brúnni við Svelgsá fyrir hartnær 100 árum síðan. Það er vert að spyrja sig hvort það sé eðlilegt að þjóð nái ekki betri tökum á vegagerð á heilli öld en sem virðist hér. Að mínu mati er áratuga bið eftir nauðsynlegum úrbótum á veginum ótæk. Um er að ræða fjölfarna leið sem er jafnframt verslunar- og viðskiptaleið en um hana fara einnig ótal ferðamenn til að njóta þess menningarauðs og þeirra spennandi áfangastaða sem leynast víða við innanverðan Breiðafjörð. Það er alveg ljóst að umferð hefur stóraukist í þessu tilliti enda svæðið fjölsótt. Það er ekkert launungarmál að bættar samgöngur um Skógarströnd myndu stórauka möguleika til margvíslegs samstarfs og bættrar þjónustu á svæðinu, svo sem í heilbrigðis- og menntamálum en ekki síst í uppbyggingu ferðaþjónustu. Heilsársvegur um Skógarströnd myndi styrkja og færa samfélög við Breiðafjörð nær hvert öðru og sameina í ríkara mæli byggðirnar við Breiðafjörð sem eitt þjónustu- og atvinnusvæði. Skógarstrandarvegur er einn stofnvega í landsfjórðungnum sem ekki er lagður bundnu slitlagi og einn örfárra slíkra á landsvísu. Leiðin um Skógarströnd er tenging Snæfellinga við aðra landshluta, bæði Vestfirði og Norðurland. Ástand vegarins kemur þó í veg fyrir að svo sé og keyra íbúar á Snæfellsnesi oftast um lengri veg suður fyrir Borgarnes nema við bestu skilyrði að sumri til að fara leiðar sinnar norður í land sem og þeir sem eiga erindi á Snæfellsnes. Það er ríflega 100 km lengri leið til Vestfjarða og 60 km lengri leið norður í land. Það sama gildir um vöruflutninga sem eru umtalsverðir á milli Vestfjarða, Snæfellsness og Norðurlands, ekki síst með sjávarafurðir. Traustar samgöngur myndu þess vegna minnka útblástur vegalengda svo um munaði. Auk þess er vegstæðið um Skógarströnd ekki aðeins íðilfagurt með Breiðafjörð til annarrar handar og Bjarnahafnarfjall til hinnar heldur liggur vegurinn um láglendi og er því sjaldnast ófær vegna snjóa.

Þrátt fyrir að vegurinn liggi vel leiddi rannsókn sem gerð var á slysatíðni á vegum á árunum 2007–2010 undir stjórn Þórodds Bjarnasonar í ljós að Skógarstrandarvegur var einn þriggja hættulegustu vega landsins. Það er í mínum huga alveg ljóst að vegurinn er síst hættuminni eins og umferð hefur aukist á síðustu árum og umferð um Skógarströnd er meiri en nokkru sinni fyrr.

Virðulegur forseti. Um ræðir vegkafla sem hefur mikilvægt hlutverk til framtíðar, tafir á framkvæmdum aftra uppbyggingu á svæðinu og samstarfi sveitarfélaga. Vegurinn er meðal hættulegustu vegarkafla landsins í því ástandi sem hann er í dag. Það eru rík umhverfissjónarmið fyrir hendi í ljósi þess að fara þarf um lengri veg en ella til að komast leiðar sinnar frá Snæfellsnesi norður í land. Byggðirnar í nágrenni vegarins eiga sumar hverjar í vök að verjast í atvinnu- og byggðalegu tilliti og þegar horft er til aukinnar ferðaþjónustu er svæðið auðugt af fjölbreyttri náttúru, sögu og menningarhefðum sem gætu staðið undir uppbyggingu ferðaþjónustu ef greiðar samgöngur væru fyrir hendi. Ég segi því aftur: Eftir hartnær 100 ára umræðu um uppbyggingu Skógarstrandarvegar á Alþingi er kominn tími til athafna. Látum verkin tala og tengjum betur saman byggðirnar við Breiðafjörð.

Að lokum legg ég til að tillögunni verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar.