153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:21]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég staldraði aðeins við orð hv. þingmanns um að hann hefði áhyggjur af umræðunni og velti því fyrir mér, af því að hv. þingmaður tekur nú gjarnan til máls í þessum málaflokki, hvort honum þyki að hann leggi sitt af mörkum til uppbyggilegrar umræðu í þessum málaflokki, bara svona legg það hér fram.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða lærdóm hann telji að við getum lært af Norðurlöndunum varðandi þróunina þar, varðandi skautunina sem hefur átt sér stað þar víða, varðandi breytta umræðu, m.a. í stjórnmálunum, og varðandi þessi breyttu viðhorf sem þeir þingmenn sem fóru í þessa umræddu ferð telja sig hafa orðið vara við, hvort hv. þingmaður telji að það skýrist bara af illu innræti viðkomandi þjóða eða hvað það er það sem skýrir þessa breyttu umræðuhefð, breyttu stjórnmál, breyttu nálgun og breyttu viðhorf.