153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[19:33]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi b-liður 1. gr. skiptir máli vegna þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga ákveðin réttindi og það er ástæða fyrir því að hér telur ráðuneytið brýnt að skilgreina þetta sérstaklega, að útlendingur teljist ekki umsækjandi þegar hann hefur fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu. Ef við skoðum bara athugasemdirnar með þessu ákvæði þá er þetta lagt til í því skyni að taka af allan vafa hvað þetta varðar og tryggja samræmda framkvæmd laganna. Það sem í þessu felst er auðvitað þessi þjónustusvipting sem við höfum rætt hér um og að því leytinu til skiptir þetta ákvæði máli, hvort útlendingur sem hefur fengið umsókn sinni synjað teljist enn þá umsækjandi um alþjóðlega vernd eða ekki.

Hitt atriðið, varðandi samstöðu í útlendingamálum. Ég hygg að já, við ættum alla vega að geta þokast eitthvað áfram í átt að (Forseti hringir.) mannúðlegri og betri útlendingalögum í þverpólitískri sátt, jafnvel allra flokka. (Forseti hringir.) Ég el þá von í brjósti a.m.k.