153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

skuldbindingar vegna ÍL-sjóðs.

[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum að fara í umræðu á eftir um þetta mál og fáránlegt að opna á umræðu um mál ÍL-sjóðs hér í fyrirspurnatíma en ég skal þó bregðast við nokkrum hlutum. Það er mikill ábyrgðarhluti þegar hv. þingmaður stendur hér í þingsal og heldur því fram að fram sé komið að ríkið ætli enga ábyrgð að bera á framtíðarskuldbindingum ÍL-sjóðs, enga ábyrgð að bera á framtíðarskuldbindingum. Þetta eru slík öfugmæli þegar verið er að reyna að vitna í þann vanda sem ég hef vakið athygli á að það er háalvarlegt mál. En það væri einmitt ef við gerðum þetta, að víkja okkur undan ábyrgð ríkissjóðs á málinu, sem hægt væri að hafa áhyggjur. Þannig að þegar hv. þingmaður sakar mig um að skilja ekki fjármálamarkaði þá ætla ég að halda því fram að hv. þingmaður skilji ekkert í lögfræðinni í þessu máli vegna þess að það eina sem ég hef gert á þessum tímapunkti er að vekja athygli á alvarlegri stöðu ÍL-sjóðs sem á ekki fyrir skuldbindingum sínum. Ég hef vakið athygli á því hvers eðlis ríkisábyrgðin á skuldbindingum ÍL-sjóðs er og ég hef sagt að það sé mitt mat en á endanum ákvörðun Alþingis að við ættum að gera upp sjóðinn á grundvelli þeirra loforða sem gefin voru á sínum tíma sem felur í sér fullt uppgjör gagnvart öllum kröfuhöfum á grundvelli ríkisábyrgðarinnar með slitum ÍL-sjóðs. Það myndi, já, spara ríkissjóði vænta aukna áhættu inn í framtíðina en það tjón sem hv. þingmaður er að vísa til að verði úti á fjármálamörkuðunum ræðst á endanum á næstu 22 árum af því hvernig þeir spila úr þeim eignum sem til þeirra ganga með fullu uppgjöri á öllum skuldbindingum ÍL-sjóðs eins og þær standa á uppgjörsdegi, og fáránlegt að vera með fullyrðingar um það hvernig úr því mun spilast.