153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

skuldbindingar vegna ÍL-sjóðs.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er gríðarlegur útúrsnúningur hér. Það sem málið snýst um, sem hv. þingmaður er að nefna, er það að sjóðurinn hefur endurfjárfest lausum eignum í áhættuminnstu eignum á Íslandi sem eru ríkisskuldir, þ.e. ríkið skuldar sjóðnum núna sem er minnsta áhætta sem sjóðurinn getur tekið. Það er góð ráðstöfun, enda er skuldin verðtryggð sem hentar sjóðnum vel. Það er einmitt verið að draga úr áhættu og mæta þörfum sjóðsins fyrir verðtryggðar eignir. Ég hafna þessu algjörlega. Það sem hv. þingmaður er hins vegar að segja er þetta: Við skulum leysa úr þessu máli með því að sjá sjúklingnum blæða hægt og rólega út, láta okkur það engu varða þó að í hverjum mánuði vaxi skuldbinding framtíðarskattgreiðenda um 1,5 milljarða, á hverju ári um 18 milljarða. Við þurfum að strjúka fjármálaöflunum í landinu, kröfuhöfunum, fjármálamarkaðirnir verða ávallt að vera í forgangi. Ég er hér til að mæla fyrir framtíðarkynslóðir þessa lands sem eiga það ekki skilið (Forseti hringir.) að við útvíkkum ríkisábyrgð sem var skýrt skilgreind einföld ríkisábyrgð, engin sjálfsskuldarábyrgð.