153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

brottvísun flóttamanna.

[15:25]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Síðastliðið vor var greint frá því að til stæði að vísa stórum hópi flóttamanna úr landi, börnum og fullorðnum, sem höfðu ílengst hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins. Hluti þessa hóps hafði verið á Íslandi í ár eða meira og hefði því lögum samkvæmt átt rétt á fullri efnismeðferð umsóknar sinnar hér á landi. Stjórnvöld reyndu hins vegar að brottvísa þessu fólki án tafar á þeim forsendum að þau hefðu neitað að undirgangast þvingað Covid-próf og með því sjálf tafið meðferð málsins. Fyrr í mánuðinum féll hins vegar dómur gegn íslenska ríkinu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að þetta væri ólöglegt, að umsækjanda í þessari stöðu yrði ekki kennt um tafir á málinu og að íslenska ríkinu bæri að taka umsóknina fyrir. Nú hefur lögreglan hins vegar hafist handa við að leita þetta fólk uppi, fólkið sem á rétt á endurupptöku máls síns í kjölfar dómsins, til að reyna að henda því úr landi og á götuna í Grikklandi, jafnvel þó að þetta fólk bíði enn eftir niðurstöðu í máli sínu í kjölfar dómsins. Í fréttum í gær var greint frá því að sýningu í Borgarleikhúsinu hefði verið frestað þar sem einn leikaranna hafði verið fluttur úr landi fyrirvaralaust. Hann hafði verið hér í um tvö ár, var orðinn vinamargur, virkur í sjálfboðaliðastarfi og að læra íslensku, búinn að gera allt sem hægt var að ætlast til af honum. Sá maður er einmitt einn þessara einstaklinga sem vísað var úr landi með valdi þrátt fyrir að hann biði niðurstöðu endurupptökubeiðni sinnar og er hann nú fárveikur og lyfjalaus á götunni í Grikklandi. Því spyr ég: Ætlar hæstv. dómsmálaráðherra í alvörunni að halda áfram að henda úr landi fólki sem dómstólar eru nýbúnir að segja að megi ekki henda úr landi?