153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

brottvísun flóttamanna.

[15:27]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Já, menn geta velt því fyrir sér í þessu samhengi hvoru er um að kenna, þeim sem neitaði að fara í Covid-próf til að væri hægt að framfylgja niðurstöðu á stjórnsýslustigi, á tveimur stjórnsýslustigum, um að hafna viðkomandi vernd á Íslandi og móttökulandið gerði kröfu um að það fylgdi Covid-próf. Dómur féll í einstöku máli núna fyrr í vikunni og það er auðvitað til rýningar í ráðuneytinu og hjá Útlendingastofnun og kemur í ljós hvort þetta er fordæmisgefandi fyrir önnur mál. Ég hef ekki skipt mér af einstökum málum eða málsmeðferð í þessum útlendingamálum almennt séð. Ég treysti þeim aðilum sem um það véla og framkvæma þetta samkvæmt lögum og vinna sína vinnu áfram á þeim forsendum sem þeir telja að séu réttar. Það verður að koma í ljós hvort þessi dómur er fordæmisgefandi eða hvort hann er það ekki. Við erum að vinna í þessum málum samkvæmt gildandi reglum. Það eru brottvísanir í gangi. Það er líka mikilvægt að það lagafrumvarp, sem vonandi kemur inn í þingið núna, sem tekur á ýmsum þáttum í þessu komist í gegn til þess að leikreglur séu skýrari og að við getum einmitt betur, getum við sagt, gefið skýrari svör til þeirra sem hingað leita um það hverjir eiga í raun erindi hingað, hverjir eru hér með umsóknir sem eru ekki kannski forsendur fyrir og eru að láta á það reyna, að sá leikur sé skýrari öllum þeim sem eru í þeirri stöðu.