153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

brottvísun flóttamanna.

[15:31]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er kannski einmitt á grundvelli þess sem hv. þingmaður kom hér inn á, að það væri einhver ágreiningur um túlkaþjónustu eða skilning viðkomandi einstaklings í þessu einstaka máli sem ekki ætti við í öðrum málum, að það geti verið skýringin á því að lögreglan og yfirvöld séu að framfylgja þeim niðurstöðum sem fyrir liggja gagnvart þeim sem hafa hlotið synjun um vernd á Íslandi. Það mun koma betur í ljós.

Okkur greinir síðan algjörlega á um innihald frumvarpsins sem ég vitnaði til áðan. Hv. þingmaður kemur reyndar úr þingflokki þar sem það hefur verið kallað ógeðsfrumvarpið ítrekað í umræðunni. Reyndar kvað aðeins við annan tón í gær og það var ekki endurtekið. En hv. þingmaður fór mörgum orðum um það í gær hve áhrifin væru lítil af þessu frumvarpi en sér svo á því mikla vankanta þess á milli. Þannig að mér fannst vera svolítið villuráfandi (Forseti hringir.) umræða sem frá Pírötum kom alveg sérstaklega í þessu máli. Við sjáum hvort hún (Forseti hringir.) hefur eitthvað þroskast á morgun.