153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

ríkisábyrgð vegna ÍL-sjóðs.

[10:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég get byrjað á því að staðfesta að þetta mál hefur verið rætt í ríkisstjórn og nú síðast í raun og veru bara í aðdraganda þess að þessi skýrsla var lögð fram. Ég hef lagt á það áherslu að það hafi verið mjög mikilvægt að fá þessa skýrslu hér inn í þingið, að hana sé svo hægt að ræða, eftir atvikum í hv. fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, áður en endanleg ákvörðun er tekin um framhald málsins, því að þetta er stórmál og það er kannski það sem mér finnst mikilvægast í þessu máli, það skiptir máli að vanda til verka því að þetta eru miklir hagsmunir.

Hv. þingmaður nefnir hér réttilega að við séum í raun og veru að ræða um almenning, hvort sem við ræðum um hagsmuni ríkissjóðs eða lífeyrissjóðanna. Vissulega eru lífeyrissjóðirnir stærsti hluti kröfuhafa eða eigenda skuldabréfa, eða hvað við kjósum að kalla það, en þetta er eigi að síður fjölbreyttur hópur þar sem við erum með fleiri aðila í þeim hópi. Ég held að ef við höldum vel á málum og gefum okkur tíma til ígrundunar þá geti hagsmunir skattgreiðenda og lífeyrisþega farið saman við lausn málsins. Með því einmitt að haga þessu uppgjöri tímanlega þýðir það ekki sjálfkrafa tap lífeyrissjóðanna heldur hafa þeir tækifæri til þess að ná fram viðunandi ávöxtun á þá fjármuni sem þarna um ræðir. Þetta eru nú helstu sérfræðingar okkar í því að ávaxta eignir sínar.

Þannig að ég hallast að því, en finnst þó mikilvægt að þingið hafi einmitt tækifæri til að ræða mál, að farsælast væri ef unnt væri að ná einhvers konar samkomulagi um uppgjör þessara mála. Ég held að ábyrgð okkar sé mikil því að við erum auðvitað að tala um mikla fjármuni sem munu annars, að öllu óbreyttu, ef ekkert verður gert, falla á komandi kynslóðir. Þannig að ég hef þá trú að þingið geti náð saman um þá leið sem verður farin.