153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

ríkisábyrgð vegna ÍL-sjóðs.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Nei, ég tek ekki undir það að þetta hafi verið ótímabærar yfirlýsingar hjá hæstv. fjármálaráðherra. Hann fór yfir sína sýn á þessa stöðu og ekki kalla ég það nema eðlilegt að fjármálaráðherra lýsi sinni skoðun. Ég held að okkur hefði þótt mjög óeðlilegt ef hann hefði ekki gert það.

Hv. þingmaður spyr: Eiga ellilífeyrisþegar að borga brúsann? Ég fór yfir það hér áðan, í fyrra svari, að ég tel alla vega að við getum gert okkur væntingar um að náist samkomulag um uppgjör þá hafi lífeyrissjóðirnir, sem eru hluti af þessum eigendum, færi á því að ávaxta sitt fé þannig að til þess þurfi ekki að koma að þetta bitni á ellilífeyrisþegum. En ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður sé sammála mér um það að ef ekkert er að gert þá fellur þessi reikningur á komandi kynslóðir og ég vil ekki að við hér sem sitjum á Alþingi nú berum ábyrgð á þeim reikningi. Þannig að ég segi já, það þarf að taka á þessu máli. Það þarf að ræða það hér á þinginu. Augljóslega kemur þetta til kasta þingsins ef ekki næst samkomulag um uppgjör málsins því að þá munum við þurfa að taka afstöðu til einhvers konar lagasetningar. Ég ítreka það að mér finnst mikilvægt að þingið fari vel yfir þetta mál.