153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

hreinsun Heiðarfjalls.

[10:44]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. 21. október 1999 fjallaði Pacific Radio í Bandaríkjunum um skrifin „Globalisation and New World Order“ og samantekt í Scientific Journal um upplýsingar sem lekið var frá Pentagon, varnarmálaráðuneytinu, varðandi þá staði sem Bandaríkjamenn notuðu til geymslu kjarnavopna á árunum 1955–1970. Þar voru tilgreind eftirfarandi lönd: Kanada, Kúba, Filippseyjar, Spánn, Taívan og nota bene, Ísland. Þess er sérstaklega getið í þessari umfjöllun að ráðamönnum á Íslandi hafi ekki verið gerð grein fyrir þessu og þeir sum sé blekktir. Herumsvifin á Íslandi voru víða um land á kaldastríðstímanum, m.a. á Miðnesheiði, í Hvalfirði, við Hornafjörð og á Langanesi, en oft hefur verið fjallað um það sem þar var skilið eftir. Nýverið fannst þar, af öllum efnum, úraníum — sem flestir vita hvað þýðir. Allt er þetta þvert á fyrirheit og fullyrðingar Bandaríkjamanna árið 1970 og allar götur fyrr og síðar.

Nú er viðhorfið til umhverfismála, mengunar og herstöðva sannarlega gerbreytt, ekki aðeins hér heldur á heimsvísu. Víst er að mikill meiri hluti Íslendinga er algerlega andvígur því að kjarnavopn séu staðsett á Íslandi til lengri eða skemmri tíma og því spyr ég nú okkar ágæta og hæstv. utanríkisráðherra: Þarf hún ekki að vera alveg hvellskýr, sú réttmæta krafa okkar nú á yfirstandandi stríðstímum að hvorki NATO né Bandaríkjamenn vogi sér að flytja hingað né vista vopn af slíkum toga? Er það ekki sömuleiðis hvellskýr og sanngjörn krafa, m.a. með vísan til komandi kynslóða, að þau hættulegu eiturefni sem hér voru skilin eftir á ýmsum stöðum, m.a. í jörðu, og þá með tilheyrandi smiti í vatnsból og fleira, verði tafarlaust brottnumin og það á kostnað þeirra sem hér fengu að hafa viðveru? Vitandi af viðvarandi afneitun Bandaríkjamanna í þessum efnum, þarf ekki íslenska ríkið að axla þá ábyrgð að hafa á sínum tíma látið blekkjast og reiða fram þær greiðslur sem þarf til hreinsunar núna, m.a. á Langanesi, og senda síðan reikninginn til Washington með skýlausri kröfu um uppgjör? Og er ekki einmitt nú, í ljósi vaxandi umsvifa NATO og Bandaríkjamanna hér, (Forseti hringir.) nauðsynlegt að gera skriflegan, ófrávíkjanlegan samning um að hvers kyns eitur og spilliefni sem til geta fallið skuli jafnharðan fjarlægð héðan á þeirra kostnað?