153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

fjármögnun málaflokks fatlaðs fólks.

[10:53]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, í ávarpi mínu þar, fjallaði ég um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna sem hefur farið versnandi eðli máls samkvæmt. Þótt þau hafi merkilegt nokk komist vel frá Covid-faraldrinum, m.a. vegna mikilla aðgerða ríkisins og ákvarðana Alþingis og ákvarðana ríkisstjórnarinnar um að tryggja jöfnunarsjóðinn, m.a. gagnvart málefnum fatlaðs fólks, þá hafa sveitarfélögin í vaxandi mæli haft erfiðari fjárhagsstöðu, skulum við segja, og fleiri hafa verið að skila taprekstri en áður. Mörg sveitarfélög hafa bent á að það sé vegna þess að málaflokkurinn málefni fatlaðs fólks hafi farið fram úr þeim tekjum og gjöldum sem menn voru með, sem sagt að útgjöldin hafi vaxið talsvert umfram tekjurnar.

Þá er auðvitað rétt að minnast þess að þegar þetta var gert upphaflega þá voru menn mjög varfærnir. Í eitt eða tvö ár var rekið einhvers konar tilraunaverkefni, ef ég man rétt, sem var keyrt hjá sveitarfélögunum en greitt af ríkinu. Þá voru menn sammála um að kostnaðurinn væri eitthvað í kringum 11 milljarðar ef ég man rétt. Tekjurnar hafa nú vaxið í 22 milljarða en útgjöldin í einhverja 33. Tekjurnar hafa tvöfaldast en útgjöldin þrefaldast, m.a. vegna ákvarðana sem hafa verið teknar á Alþingi.

Nú hefur verið unnin talsvert mikil úttektarskýrsla undir stjórn Haraldar Líndals. Það var ákveðið einhvern tímann fyrr á þessu ári eða í haust að taka betri greiningu á ákveðnum þáttum sem ekki mun skila sér fyrr en á næsta ári í ljósi þess að fjárhagsstaða sveitarfélaganna — og sem ráðherra sveitarstjórnarmála þá lagði ég það til (Forseti hringir.) og við höfum rætt það lítillega í ríkisstjórn (Forseti hringir.) að færa hluta af tekjuskatti yfir í útsvar svo næmi (Forseti hringir.) þessum 5,6 milljörðum og það í fjárlögum 2023.