153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

skuldbindingar ríkisins vegna ÍL-sjóðs.

[10:58]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Eftir lokun markaða á fimmtudag hélt hæstv. fjármálaráðherra blaðamannafund þar sem hann kynnti að Íbúðalánasjóður færi að óbreyttu í þrot eftir 12 ár. Þá myndi reyna á ríkisábyrgð. Samkvæmt þessu liggur reyndar líka fyrir að næstu 12 árin á sjóðurinn fyrir skuldbindingum sínum. Á sama fundi kynnti fjármálaráðherra hugmynd sem hann sagði geta sparað, og ég held að það sé ástæða til að setja það í gæsalappir, „sparað“, ríkissjóði gríðarlegar fjárhæðir en þar mátti samt líka að heyra að væntanlegt fjártjón ríkissjóðs í dag væri um 47 milljarðar. Hvar lá þá eiginlega sparnaðurinn? Jú, honum átti að ná fram með því að ná samkomulagi við lánardrottna og með því að breyta líftíma bréfanna í sjóðnum. Þetta eru lífeyrissjóðirnir að stærstum hluta, með öðrum orðum almenningur. Sparnaðurinn liggur í því gamla lögmáli að aðrir eiga að taka reikninginn fyrir klúðrið við Íbúðalánasjóð. Undir er sparnaður almennings í landinu, ekki síst eldri borgara. Eigendur bréfanna eru reyndar líka ýmis almannaheillafélög, góðgerðarfélög sem byggja rekstrargrundvöll sinn einmitt á öruggum fjárfestingum með ríkisábyrgð. Framsetning skiptir máli. Í kynningu hæstv. fjármálaráðherra kom fram bein hótun hans um að ef eigendur bréfanna ganga ekki til samninga við fjármálaráðherra þá muni hann beita lagasetningu til að setja sjóðinn í þrot. Þá er stóra spurningin: Í hvaða samningsstöðu eru menn í viðræðum sem hefjast með hótun af hálfu ríkisstjórnar Íslands? Spurning mín er þessi: Styður hæstv. forsætisráðherra þá hugmynd að fara með þessum hætti inn í sparnað almennings, t.d. eldri borgara, og hugnast forsætisráðherra þessi aðferðafræði, að hefja samningaviðræður með beinum hótunum af hálfu ríkisstjórnar Íslands?