153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

skuldbindingar ríkisins vegna ÍL-sjóðs.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og ég get sagt það hér að þetta er vissulega stórt mál. En ég furða mig líka á því að mér hefur fundist umræðan nánast snúast um að við eigum bara að hafa þetta áfram ofan í einhverri skúffu og ekki hugsa um þetta núna. Þeirri hugsun er ég algerlega ósammála. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við opnum þessa skúffu. Þetta er uppsafnaður fjárhagsvandi og það er engin ein góð lausn í þessu máli. Ég held að við hv. þingmenn hljótum að vera sammála um það.

Málið snýst um það að þarna eru annars vegar kröfuhafar, eigendur skuldabréfa, eða hvað við kjósum að kalla þá, lífeyrissjóðir eru stærsti hlutinn, líka verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir, tryggingafélög og einstaklingar. Þetta er fjölbreyttur hópur sem hefur fært sínar eignir með mismunandi hætti, ýmist á stofnvirði eða markaðsvirði, sem hefur áhrif á hvernig mögulegt uppgjör kæmi út. Samkvæmt ársreikningareglum er lífeyrissjóðum til að mynda heimilt að gera þessi skuldabréf upp með tvennum hætti. Það er auðvitað í höndum lífeyrissjóðanna sjálfra að ákvarða hvaða leið er farin í því. Þeir sem hafa gert bréfin upp á kaupkröfu verða þá væntanlega fyrir mun minni áhrifum en þeir sem hafa gert það á markaðsverði. Þessi staða er því mjög mismunandi milli þeirra sem eiga hagsmuna að gæta. Mér finnst hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að ef við gerum ekkert í þessu máli þá erum við að velta vandanum inn í framtíðina. Ég vil líka segja að ég lít ekki á þetta sem hótun. Ég lít einfaldlega á það sem hefur verið sett fram í þessum efnum, þ.e. að við eigum nokkra valkosti og enginn þeirra er góður, eins og svo oft er þegar við tökumst á við flókin úrlausnarefni. Hér hefur verið rætt að það sé æskilegt að við getum hafið samtal við eigendur bréfanna um að ná mögulega einhverju samkomulagi. Það fyndist mér eðlilegt fyrsta skref í þessum málum. (Forseti hringir.) En ég hef líka lagt á það áherslu, eins og kom fram í fyrra svari, að Alþingi Íslendinga fái tækifæri til að fara ofan í málið á viðeigandi vettvangi.