153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

skuldbindingar ríkisins vegna ÍL-sjóðs.

[11:03]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Hér heyrast engin svör um afstöðu Vinstri grænna til þess hvernig eigi að leysa málið. Mistökin sem eru rót þessa ævintýralega tjóns Íbúðalánasjóðs eru eitt, og þau eru rækilega staðfest í skýrslu rannsóknarnefndar. Tveir flokkar eiga þetta klúður skuldlaust, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, en eins og venjulega er það forsætisráðherra sem situr uppi með höfuðverkinn og hún er ekki öfundsverð af því. Það er enginn hér inni, hvorki í gær né í dag, að tala fyrir því að ekkert eigi að gera heldur hvernig eigi að leysa málið. Ég hef engar skýringar heyrt á því hvers vegna ekki var hægt að hefja samtal við samningsaðila án þess að blása fyrst í herlúðra, án þess að beita hótunum, án þess að stilla upp við vegg. Fjármálaráðherra hefur látið vinna lögfræðiálit. Þar er niðurstaðan sú að þessi aðferð sé heimil vegna þess að þetta hafi áður verið gert með neyðarlögum í hruninu. Það er vísað í þær aðstæður, þannig að ég spyr forsætisráðherra: Tekur hún undir það að þær aðstæður séu uppi í dag? (Forseti hringir.) Það væru sennilega stærstu fréttirnar í dag ef svo væri.