153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

framlög til heilbrigðiskerfisins.

[11:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég held að ef við horfum á þessi mál með sanngirni þá geti hv. þingmaður ekki neitað því að framlög til heilbrigðismála hafa vissulega vaxið í tíð þessarar ríkisstjórnar og sú aukning hófst með markvissum hætti í tíð fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur. Ég get rætt bæði stofnkostnaðarframlög sem hafa vaxið til að mæta uppsafnaðri þörf, t.d. hvað varðar uppbyggingu hjúkrunarrýma. Framlög til geðheilbrigðismála hafa vaxið, framlög til að lækka kostnað sjúklinga hafa vaxið, framlög inn í þjónustu heilsugæslunnar hafa vaxið o.s.frv. Það er auðvitað langt umfram það sem við getum kallað aukningu til að mæta fjölgun landsmanna eða eðlilegri þróun. Hins vegar, og þar held ég að við hv. þingmaður getum alveg verið sammála, þá hefur heilbrigðisþjónustan gengið í gegnum ótrúlega erfiða tíma á þessum tveimur árum sem heimsfaraldur stóð þannig að við stöndum frammi fyrir enn frekari áskorunum þegar kemur til að mynda að líðan starfsfólks og mönnun í heilbrigðisþjónustu, og sá vandi var ærinn fyrir. Við erum auðvitað með gögn sem sýna það, ekki bara á Íslandi heldur annars staðar, t.d. á Norðurlöndum þar sem þessi mál hafa verið töluvert rædd, að mönnun heilbrigðisþjónustunnar er gríðarlega stórt viðfangsefni sem við þurfum að takast á við og þurfum að gera betur í. Þetta álagsferli sem hefur verið í þessi tvö ár hefur margvísleg áhrif umfram bara stöðu starfsfólks sem ég held að skipti máli að við tökumst á við líka. Það hefur verið rætt um ákveðna endurheimt í þeim efnum. Að lokum langar mig að nefna að þrátt fyrir aukningu framlaga til geðheilbrigðismála þá held ég að allt sem við höfum séð í þeim efnum sýni okkur að það er í raun og veru mál sem var svo löngu tímabært að fara að takast á við og við erum að sjálfsögðu ekki komin á leiðarenda í þeim efnum.