153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

framlög til heilbrigðiskerfisins.

[11:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég verð nú að segja að mér finnst viðbrögð hv. þingmanns fremur grátleg. Það er ekki hægt að líta fram hjá því í fyrsta lagi að sú aukning sem ég fór hér yfir, hvort sem er til geðheilbrigðismála, til að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga eða í stofnframkvæmdir, var löngu komin til áður en Covid skall á. Það er heldur ekki hægt að líta fram hjá því að Covid-kostnaður hefur verið greiddur og við það staðið sem hér hefur verið lýst. Það sem ég var að fara hér yfir í mínu máli, og hv. þingmaður rangtúlkar í sínu seinna andsvari, er auðvitað aukning sem var ákveðin í upphafi síðasta kjörtímabils til að fara í uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu. Það kom hins vegar fram í mínu máli að þrátt fyrir aukningu til geðheilbrigðismála væri þörf á að gera betur þar. Ef hv. þingmaður kýs að túlka þetta svo þá verð ég hreinlega að leggja það í hennar hendur. Síðasta mæling sem ég sá hvað varðar framlög til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu sýndi okkur að við þokumst upp á við þótt við værum ekki komin á sama stað og nágrannaþjóðir. Hv. þingmanni mætti líka vera ljóst að framlög, (Forseti hringir.) t.d. til að lækka kostnað sjúklinga sem við í Vinstri grænum höfum lagt alla áherslu á, eru nú að nálgast þann stað að vera á pari við aðrar Norðurlandaþjóðir, sem var nákvæmlega það sem þessi ríkisstjórn sagðist ætla að gera.