Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[13:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Útlendingalögunum var breytt í mjög breiðri þverpólitískri samstöðu 2016 og þessi ríkisstjórn hefur núna fimm sinnum reynt að breyta þeim lögum í allt öðru en breiðri pólitískri sátt. Það er engin sátt um þetta frumvarp. Það hlýtur að sjást af því að það hefur ekki komist í gegnum þingið, þetta er fimmta árið. Hvar er þessi pólitíska sátt sem hv. þingmaður er að kalla eftir? Eigum við að sætta okkur við það að þessi einhliða árás á réttindi flóttafólks sé allt í einu orðin að breiðu pólitísku sáttinni sem varð til 2016? Að við eigum að setja hömlur á þau réttindi, takmarka þau, skerða eða gera þau verri, koma fólki á götuna? Er það þannig sem við eigum að ná þessari breiðu sátt sem hv. þingmaður er að spyrja mig um hvort þurfi ekki að vera? Miðað við þann málflutning sem hefur komið frá hæstv. dómsmálaráðherra þá verður aldrei af minni hálfu sátt við hans nálgun á flóttamannamálin. Ekki séns. Það kemur ekki til greina. Mér finnst ekki mikilvægara að ná sáttum við hæstv. dómsmálaráðherra eða vinna með honum heldur en að vernda réttindi flóttafólks. Það er algjörlega á tæru af minni hálfu. Sáttin liggur fyrir, hún er frá 2016. Það var farið í einhverjar furðulegar æfingar til þess að reyna að koma á þverpólitísku samráði um hvernig mætti breyta þessum lögum og það skip sigldi algjörlega í strand, en það var ekki vegna þess að stjórnarandstaðan væri ekki til í neina sátt. Það var vegna þess að það var enginn raunverulegur áhugi á að ná sátt við stjórnarandstöðuna. Það stóð alltaf til að fara í þessa vegferð sem er að lögfesta allar þær ólögmætu aðgerðir sem stjórnvöld hafa farið í gagnvart flóttamönnum hingað til, eins og það að henda þeim á götuna án lagaheimildar fyrir ári síðan. Nú á að lögfesta getu stjórnvalda til að henda flóttafólki á götuna. Ég vil spyrja hv. þingmann á móti: Hvað finnst honum um það?