Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[13:35]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég hafi alveg náð svari hv. þingmanns af því að ég veit að hv. þingmaður hefur bæði vit og þekkingu og miklar skoðanir á þessum málaflokki og mér finnst það bara afar dýrmætt í þessari umræðu eins og annarri, svo ég segi mína skoðun á því hér, virðulegur forseti. Ég bara spyr aftur: Telur hv. þingmaður mikilvægt, og kannski er rétt að segja óháð aðferðafræði eða uppleggi, að inn í framtíðina og þegar við vélum um þessi mál þá ríki um þau breið sátt? Hér var komið inn á hættulega orðræðu. Ég deili nefnilega algjörlega þeirri sýn með hv. þingmanni og fleirum að það sem elur á hættulegri orðræðu í þessu er hugsanlega eitthvert rót á umræðunni. Við erum að sjá uppgang öfga hægri afla í heiminum sem veldur mér ugg og ég hygg að ég og hv. þingmaður deilum því. En telur hv. þingmaður mikilvægt að þegar við komum okkur saman um niðurstöðu, sem við gerum m.a. með umræðum og þinglegri meðferð og næsta skref er væntanlega allsherjar- og menntamálanefnd þegar umræðan er búin hér, þá ríki breið sátt, ég sagði nú áðan tiltölulega breið sátt, um það hvernig við ætlum að standa að þessum málum? Hvert er endanlegt svar hv. þingmanns, ef hún er tilbúin að svara því hér og nú?