Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[13:38]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég tek í dag til máls um stöðuna í Íran, um hræðileg mannréttindabrot og ofbeldi íranskra stjórnvalda gagnvart almenningi þar í landi. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að vera hér í dag til að taka þátt í umræðum um þessi mál og ég þakka henni líka fyrir að hafa rætt þessa stöðu og þessi brot íranskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi fyrir hönd Íslands. Það skiptir máli. Mér finnst skipta máli að hér á Alþingi heyrist það hátt og snjallt að við höfum fylgst með því sem er að gerast, að við heyrum og að við sjáum og að við stöndum með almenningi í Íran, konum í Íran. Þessi bylting, því að við erum að tala um byltingu, var í upphafi leidd áfram af konum, af ungum stelpum. Ég viðurkenni það fúslega hér í dag að ég hef fylgst með þessu máli sem kona. Þessi bylting snýst nefnilega að svo miklu leyti um stöðu kvenna, líf kvenna og réttindi kvenna og hvaða líf konum býðst og á að bjóðast. Það er magnað að skynja að réttlát reiði kvenna þar í landi trompar hræðslu þeirra við stjórnvöld. Hugrekki þeirra er þannig að heimurinn fylgist með af aðdáun. Byltingin hefur breiðst út um allt í Íran og heyrist um allan heim og það gerist þrátt fyrir að írönsk stjórnvöld reyni allt sem þau geta til að bæla byltinguna niður með ofbeldi, með því að skerða netsamband, með því að myrða mótmælendur, almenna borgara sem gera ekki annað en að benda á óréttlætið og mótmæla því. Fjöldi fólks sem tekur þátt í byltingunni vex og fjöldinn vex þrátt fyrir að þátttaka í mótmælum, þátttaka í byltingu geti kostað fólk lífið.

Frú forseti. Mótmælin hófust eftir að Mahsa Amini lést í haldi írönsku siðgæðislögreglunnar svokölluðu. Hennar dauðasynd reyndist vera sú að hún hafði að mati lögreglu borið höfuðklút sinn á óviðeigandi máta. Hún var 22 ára þegar hún lést. Sögunum af ofbeldi og dauðsföllum hefur fjölgað síðan. Yfirvöld halda því fram að fólki í haldi þeirra látist af slysförum. Þau leyfa fjölskyldum ekki að sjá lík barna sinna, jarða þau jafnvel í öðrum landshlutum svo fjölskyldur geti ekki vitjað látinna aðstandenda. Skýrsla Amnesty International er sögð varpa ljósi á dauðsföll barna meðan á mótmælunum hefur staðið, að stjórnvöld beiti sér sérstaklega gegn ungu fólki og sérstaklega konum. Bara á tíu daga tímabili í september voru 23 börn myrt af öryggissveitum Írans, drengir og stúlkur undir 18 ára aldri. En það hefur ekki dugað til, almenningur gefst ekki upp.

Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa framfylgt þvingunaraðgerðum sem Evrópusambandið hefur ákveðið að grípa til gagnvart Íran vegna dauða Mahsa Amini og vegna, ég vil segja það alveg skýrt, ábyrgðar stjórnvalda á dauða hennar. Ráðherraráð Evrópusambandsins hefur sett saman hóp manna á lista yfir þá sem sæta þessum þvingunaraðgerðum og þar á meðal er siðgæðislögregla og almenn lögregla. Opinber fordæming íslenskra stjórnvalda skiptir máli og fordæmingin á að haldast í hendur við aðgerðir eins og frystingu eigna og ferðabann til Evrópu eins og Evrópusambandið hefur mælt fyrir um.

Ég hefði áhuga á að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra hvort frekari stuðningur við almenning í Íran sé væntanlegur og hvort í kortunum séu einhverjar frekari aðgerðir, og þá hverjar, gegn stjórnvöldum þar í landi, um stuðning við íbúa landsins annars vegar og aðgerðir gegn stjórnvöldum hins vegar. Hvað getur hæstv. utanríkisráðherra t.d. sagt okkur um stöðu fólks sem er á flótta nú frá Íran? Hefur það verið rætt á vettvangi utanríkisráðherra á alþjóðavettvangi hvernig hægt er að styðja með markvissum hætti það fólk sem hefur flúið sitt heimaland? Eftir því sem mér skilst er Tyrkland oft fyrsta skjól og fyrsti staður. Hvaða áhrif hefur það á framhaldið, á möguleika fólks og stöðu? Hvernig kemst þetta fólk í skjól? Og ég vil líka að við séum meðvituð sem stjórnvöld um sársauka þess fólks frá Íran sem hér er búsett og fylgist með því sem er að gerast í þeirra heimalandi og við séum vakandi fyrir stuðningi að því leytinu til.

En ástæða umræðunnar var einfaldlega sú að við gætum hér á Alþingi Íslendinga átt þetta samtal hér í dag (Forseti hringir.) og sýnt með orðum okkar og í verki stuðning við almenning og ekki síst konur í Íran.